Lögreglan leitar að tíu manna fjölskyldu sem er saknað

Finnska lögreglan.
Finnska lögreglan. AFP

Finnska lögreglan segist hafa fengið meira en 100 ábendingar eftir að hafa leitað upplýsinga um tíu manna fjölskyldu sem hefur verið týnd í meira en eitt ár, vegna gruns um að foreldrarnir hafi flúið með börn sín sem voru í umsjá barnaverndar.

Fjölskyldan, sjö börn fædd á árunum 2007 til 2021, faðir og móðir sem var ófrísk á þeim tíma, hvarf 15. maí í fyrra frá vesturhluta Finnlands þar sem hún bjó.

Í síðustu viku upplýsti lögreglan almenning um málið og óskaði eftir upplýsingum. Lögregluna grunar að foreldrarnir hafi tekið börn sín, sem voru í umsjá barnaverndar á þeim tíma sem þau hurfu, og telur hún að fjölskyldan hafi yfirgefið landið. Gefin hefur verið út alþjóðleg handtökuskipan á hendur foreldrunum.

Finnska lögreglan hefur greint frá því að hún sé í samstarfi við lögregluyfirvöld á Norðurlöndum.

„Leit hefur verið gerð á nokkrum stöðum en hingað til hefur hún ekki borið neinn árangur,“ segir Tony Rauma rannsóknarlögreglumaður í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert