Skoðar að beita lagaákvæði frá 1807

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fjölmiðla í dag.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fjölmiðla í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti útilokar ekki að beita lögum frá árinu 1807 sem kallast „uppreisnarlögin“ (e. The Insurrection Act) til að takast á við óeirðirnar í Los Angeles (LA).

Þetta sagði Trump á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag en hann kvaðst ætla beita löggjöfinni ef óeirðirnar myndu leiða til uppreisnar. 

„Ef það er uppreisn myndi ég beita því [lagaákvæðinu]. Við skulum sjá. Ég get sagt ykkur að síðasta nótt var hræðileg og nóttin þar á undan,“ sagði Trump á blaðamannafundinum. 

Lögin eru alríkislög sem heimila Bandaríkjaforseta að kalla út bandaríska herinn á landsvísu og að gera þjóðvarðlið einstakra ríkja að alríkissveitum. Löggjöfinni hefur aðeins verið beitt við sérstakar aðstæður, t.d. til að bregðast við óeirðum eða vopnuðum átökum gegn alríkisstjórn Bandaríkjanna. 

Síðast beitt vegna óeirða í LA

Lögin eru í raun mörg mismunandi lagaákvæði sem bandaríska þingið samþykkti á árunum 1792 til 1871. Frá því að lögin voru samþykkt hefur þeim verið beitt 30 sinnum. Síðast árið 1992 vegna óeirða sem brutust út í LA.

Trump fór um víðan völl á umræddum blaðamannafundi en hann kallaði mótmælendurna í LA „uppreisnarmenn“ og „launaða æsingamenn“ en mótmælendur hafa undanfarna daga mótmælt innflytjendastefnu Bandaríkjastjórnar. 

Greint var frá því í morgun að Trump hygðist senda inn 2.000 landgönguliða, til viðbótar við þá þrjú hundruð sem hann sendi á sunnudaginn, til LA til að koma böndum á mótmælin. Auk þess hefur hann skipað sjö hundruð landgönguliðum að fara á vettvang.

Spurður hvort þjóðvarðliðið verði í LA ótímabundið sagði Trump að þeir myndu vera þar til engin hætta er lengur til staðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert