Tíu látnir eftir skotárásina í Graz

Frá vettvangi við skólann í Graz í morgun.
Frá vettvangi við skólann í Graz í morgun. AFP

Tíu eru látnir og á annan tug særðir eftir að maður hóf skothríð í skóla í borginni Graz í Austurríki í morgun að sögn borgarstjórans.

Elke Kahr, borgarstjóri í Graz, staðfesti við austurrísku fréttastofuna að nokkrir nemendur og að minnsta kosti einn fullorðinn, auk grunaðs byssumanns, séu meðal hinna látnu. Talið er að árásarmaðurinn hafi svipt sig lífi á salerni í skólanum.

Kaja Kallas, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, segist vera í áfalli vegna fréttanna um skotárásina.

Lögreglumenn á vettvangi.
Lögreglumenn á vettvangi. AFP

„Öll börn ættu að finna fyrir öryggi í skóla og geta lært laust við ótta og ofbeldi. Hugur minn er hjá fórnarlömbunum, fjölskyldum þeirra og austurrísku þjóðinni,“ skrifar Kallas í færslu á samfélagsmiðlinum X.

Árásir á almannafæri eru sjaldgæfar í Austurríki þar sem íbúar eru næstum 9,2 milljónir. Samkvæmt Global Peace Index er Austurríki eitt af tíu öruggustu löndum heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert