„Hann viðurkennir að hafa slegið og stungið hina látnu, en hefur ekki tekið sakarafstöðu,“ segir Odd Skei Kostveit rannsóknarlögreglumaður um mál manns á fimmtugsaldri sem stakk konu til bana á fjölfarinni miðbæjargötu í norska bænum Hønefoss í gær í atburðarás sem lyktaði með því að lögreglan skaut manninn er sýnt þótti að engu tauti yrði við hann komið.
Að sögn lögreglumannsins hefur grunaði fallist á að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur með bréfa- og heimsóknabanni. Kostveit segir lögreglu hafa fengið nokkuð glögga mynd af því sem gerðist og eins forsögu málsins, en grunaði er fyrrverandi eiginmaður fórnarlambs síns. Þau skildu árið 2019.
Astrid Røkeberg heitir réttargæslulögmaður dóttur hinnar myrtu – sem hún átti með grunaða – og mun annast hagsmuni hennar gegnum komandi réttarhöld yfir föður hennar. „Hún biður um frið,“ segir réttargæslulögmaðurinn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og kýs að tjá sig ekki frekar um málefni dótturinnar.
Kostveit segir grunaða nokkrum sinnum hafa sætt nálgunarbanni gagnvart konu sinni og hafi eitt slíkt verið úrskurðað í maí og verið í gildi þegar maðurinn lét til skarar skríða í gær. Bætir hann því við að konan hafi einnig haft nálgunarviðvörunarbúnað sem á norsku kallast voldsalarm og Danir tóku fyrstir Norðurlandaþjóða í notkun nýlega.
Sá búnaður er í formi ökklabands sem hinn óæskilegi ber og sendir sjálfkrafa skilaboð til lögreglu og þess sem verndarinnar nýtur komi ökklabandið inn fyrir ákveðið fjarlægðarmark frá heimili þess síðasttalda.
Grunaði er ekki alvarlega særður eftir að hafa fengið skammbyssuskot lögreglu í lærið og segir Kostveit frá því að lögregla ræði nú við vitni til að öðlast gleggri mynd af árásinni í gær. Upptökur úr öryggismyndavélum fyrirtækja í miðbænum hafi varpað miklu ljósi á það sem gerðist.
Runar Johansen, bæjarstjóri í Ringerike, sveitarfélaginu sem Hønefoss tilheyrir, segir atburðinn skelfilegan í samtali við NRK. „Þetta minnir okkur á hve viðkvæmt lífið er. Eitt augnablik gengur maður í hægðum sínum eftir gangstéttinni og það næsta er lífinu lokið. Við sjáum því miður að töluvert er um ofbeldi í nánum samböndum, líka þegar fólk sætir nálgunarbanni. Og nú gerist þetta í bænum miðjum, úti á götu,“ segir bæjarstjórinn.
Áfallahjálparteymi Hønefoss hefur verið virkjað auk þess sem dyr kirkju bæjarins standa opnar þeim er um sárt eiga að binda.