„Stórsigur fyrir báðar þjóðir“

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína. Samsett mynd/AFP

Samband Bandaríkjanna og Kína er „frábært“ að sögn Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna.

Þetta kemur fram í færslu sem Trump birti á samfélagsmiðlinum sínum Truth Social í kjölfar samkomulags á milli þjóðanna eftir tveggja daga viðræður í Lundúnum í Bretlandi.

Markmið samkomulagsins er að ná sáttum á milli ríkjanna en viðskiptastríð hefur geisað hjá ríkjunum að undanförnu. 

Kínverjar útvegi jarðmálma

Trump segir í færslu sinni að Kínverjar muni útvega Bandaríkjamönnum sjaldgæfa jarðmálma og segla sem eru nauðsynlegir fyrir bandarískan iðnað. Í staðinn munu Bandaríkjamenn leyfa kínverskum nemendum að stunda nám í háskólum landsins.

Færsla Trumps birtist fáeinum klukkustundum eftir að samningamenn Bandaríkjanna og Kína kynntu ramma að samningi seint á þriðjudag eftir tveggja daga viðræður.

Háður samþykki forsetana

„Samningaviðræðum okkar við Kína er lokið,“ skrifaði Trump og bætti við að samningurinn væri enn háður lokasamþykki hjá Xi Jinping, forseta Kína og honum sjálfum.

Hann bætti svo við að ef samningurinn gangi í gegn verði það „stórsigur fyrir báðar þjóðir.“

Bandaríkin höfðu áður hótað að afturkalla vegabréfsáritanir kínverskra námsmanna, sem eru mikilvæg tekjulind fyrir bandaríska háskóla. Á miðvikudag staðfesti Trump að þeir myndu áfram fá að nýta sér nám í Bandaríkjunum samkvæmt samkomulaginu.

Samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu munu Bandaríkin leggja 55% tolla á kínverskar vörur. Kína mun aftur á móti leggja 10% tolla á bandarískar vörur. Þetta eru sömu tollar og áður voru samþykktir í fyrri samningaviðræðum ríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert