Sænsk og norsk lögregla rannsakar nú mál þriggja Norðmanna sem grunaðir eru um að hafa undir höndum allt að eitt tonn af kókaíni – þó án þess að hafa sjálfir staðið að smygli efnisins heldur gengur höfuðkenning lögreglu út á að mennirnir hafi einfaldlega stolið efnunum, heilum bananagámi sem hvarf sporlaust af umráðasvæði hafnarinnar í sænska bænum Helsingborg í maí.
Fer sænska lögreglan nú fram á að hinir þrír grunuðu verði framseldir henni frá Noregi, þar sem þeir sitja í gæsluvarðhaldi, en eftir því sem Svenska Dagbladet greinir frá var kókaínsendingin á leið til Hollands. Sænska ríkisútvarpið SVT fjallaði um málið í maí og sagði þá frá því að upphaf málsins mætti rekja til þess er lögregla fann 250 kílógrömm af kókaíni í Kirseberg í sænsku borginni Malmö.
Við rannsókn málsins fléttaðist svo annað mál inn í hana, fyrirtæki sem átti von á bananagámi til Helsingborgar skömmu áður en efnið í íbúðinni fannst, greip í tómt þegar flutningabifreið á þess vegum kom á hafnarsvæðið til að sækja gáminn. Kom þá í ljós að önnur bifreið hafði verið á ferð skömmu áður – ökumaður hennar greinilega villt á sér heimildir – og ekið á brott með gáminn.
Telur sænska lögreglan að í bananagáminum, sem var á leið frá Suður-Ameríku, hafi leynst eitt tonn af kókaíni þegar þjófarnir hrifsuðu hann til sín, ekki löngu áður en efnið náði til meints móttakanda efnisins í Hollandi. Þar með er um langstærsta einstaka kókaínmál í sögu Svíþjóðar að ræða, að sögn sænskra miðla, þótt mikið kókaín finnist jafnan á hafnarsvæðinu í Helsingborg.
Greindi SVT frá því í maí 2023 að þá hefðu samtals 1,3 tonn af efninu fundist þar á svæðinu frá því í september árið áður, en í apríl 2023 fundust 460 kg í einni sendingu og 450 kg í annarri í maí.
„Þetta er stórt fíkniefnamál,“ segir Karin Lundström-Kron, ákæruvaldsfulltrúi sænsku lögreglunnar, við norska ríkisútvarpið NRK í dag og bætir því við að hinir grunuðu, Norðmennirnir þrír, hafi að öllum líkindum verið staddir í Svíþjóð þegar gámurinn hvarf af hafnarsvæðinu í maí.
Mennirnir voru handteknir í norsku höfuðborginni Ósló skömmu fyrir nýliðin mánaðamót, það staðfestir Audun Kjernli, ákæruvaldsfulltrúi lögreglu þar í borg, við NRK. „Norska lögreglan og embætti saksóknara fengu senda handtökuskipun frá Svíþjóð á hendur þremur norskum ríkisborgurum auk þess sem framsals þeirra er beiðst,“ segir Kjernli.
Voru mennirnir handteknir, en ákæruvaldsfulltrúinn tjáir sig ekki frekar um málið en að greina frá því. Hafa hinum grunuðu verið skipaðir verjendur sem einnig þegja þunnu hljóði um mál skjólstæðinga sinna.
Þá hefur sænska lögreglan einnig haft hendur í hári grunaðra sín megin landamæranna og fengið þá úrskurðaða í gæsluvarðhald. Þetta staðfestir Lundström-Kron ákæruvaldsfulltrúi við NRK.
Undanfarin misseri hefur norsk lögregla lagt hald á tvö og hálft tonn af kókaíni á lager bananadreifingaraðilans Bama í Ósló, þar af 2,3 tonn árið 2023 og 147 kg nú í maí. Er magnið meira en fundist hafði af kókaíni samanlagt yfir 22 ára tímabil þar á undan.
Stærsta hluta efnanna, 1.515 kílógrömmum í tveimur sendingum, var skipað á land í Ósló fyrir hreina handvömm, en réttur áfangastaður gámanna – og efnanna í þeim – var Brandenburg í Þýskalandi. Lögregla þar fann þó hluta sendingarinnar, 1,2 tonn, sem skilað hafði sér á leiðarenda svo smyglararnir í Brandenburg höfðu átt von á tæpum þremur tonnum af kókaíni.
NRK vitnar í viðtal við Jeremy McDermot, innsta kopp í búri vefmiðilsins InSight Crime, í tímaritinu Vice, þar sem hann segir kókaínsmygl í bananagámum vinsæla smyglaðferð. Hvort tveggja, bananar og kókaín, komi frá sama heimshorninu og séu eftirsóttar neysluvörur.
„Ein af ástæðum þess að bananar eru vinsæll leppvarningur er að þeim þarf að koma fljótt á áfangastað svo þeir komi þangað ferskir og óskemmdir,“ segir McDermot við Vice.