Hátt í hundrað látnir í árásunum

78 hafa látið lífið í árásum Ísraelsmanna á Íran.
78 hafa látið lífið í árásum Ísraelsmanna á Íran. AFP

78 eru látnir og meira en 320 hafa særst í árásum Ísraelsmanna á Íran síðasta sólarhringinn. Þá hafa 34 særst í gagnárásum Írana á Ísrael.

Amir Saeid Iravani, sendiherra Írans hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í kvöld að „villimannleg og glæpsamleg árás“ Ísraels og markvissar morðtilraunir hafi beinst að háttsettum embættismönnum í her landsins og vísindamönnum á sviði kjarnorkuvísinda en að „yfirgnæfandi meirihluti“ fórnarlamba hafi verið almennir borgarar, þar á meðal konur og börn.

Sameinuðu þjóðirnar funda nú í New York.
Sameinuðu þjóðirnar funda nú í New York. AFP/Michael M. Santiago

Skýrt dæmi um ríkishryðjuverk

Sendiherrann sagði að 78 manns hefðu látist og yfir 320 særst í árásum Ísraels.

„Þessi grimmdarverk eru skýrt dæmi um ríkishryðjuverk og gróft brot á alþjóðalögum,“ sagði Iravani.

Írönsk yfirvöld hófu gagnárás á Ísrael fyrr í kvöld þar sem eldflaugum var skotið á ísraelsku borgina Tel Avív.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert