Að minnsta kosti sex sérhæfðir vísindamenn í kjarnorku féllu í árásum Ísraela á Íran í nótt, að sögn fjölmiðla í Íran.
Tasnim fréttastofan hefur nafngreint vísindamennina en þar á meðal er Mohammad Mehdi Tehranchi, forseti íslamska Azad-háskólans í Íran.
Fereydoun Abbasi, fyrrverandi yfirmaður kjarnorkumálastofnunar Írans, var einnig meðal þeirra vísindamanna sem féllu, að sögn Tasnim fréttastofunnar.
Árásirnar í nótt beindust meðal annars að aðstöðu Írana til auðgunar kjarnorku en einnig að íbúðarbyggingum í Teheran.
Bæði Hossein Salami, yfirmaður byltingarvarðarins og Mohammad Bagheri hershöfðingi féllu í aðgerðum Ísraelshers.