Skreið út um gat á skrokki flugvélarinnar

Vishwashkumar Ramesh var sá eini komst lífs af í flugslysinu …
Vishwashkumar Ramesh var sá eini komst lífs af í flugslysinu í Indlandi í gær. AFP

Breski ríkisborgarinn Vishwashkumar Ramesh, eini farþeginn sem komst lífs af í flugslysinu á Indlandi í gær, komst út í gegnum gat á skrokki vélarinnar.

„Mér tókst að losa mig úr beltinu, notaði fótinn til að ýta mér í gegnum gatið og skreið út,“ sagði Ramesh við indverska ríkisfjölmiðilinn DD News.

Ramesh sat í sæti 11A í Boeing 787 flugvélinni sem var á leið til Lundúna þegar hún hrapaði skömmu eftir flugtak í Ahmedabad í vesturhluta Indlands í gær.

Ramesh er búsettur í Leicester, er giftur og á fjögurra ára son og segist hann vera afar þakklátur fyrir að vera á lífi.

Indversk stjórnvöld tilkynntu í gær að allir aðrir farþegar og áhöfn hefðu farist í slysinu. Þar á meðal voru 169 indverskir ríkisborgarar og 52 breskir ríkisborgarar. Yfir 200 hafa fundist látnir á vettvangi og stendur leit enn yfir.

Ljósin í flugvélinni flöktu við flugtak

Ramesh sagði að ljósin í flugvélinni hefðu byrjað að flökta skömmu eftir flugtak. Í fimm til tíu sekúndur fannst honum eins og vélin væri föst í loftinu. „Ljósin byrjuðu að flökta og urðu græn og hvít. Skyndilega skall vélin á byggingu og sprakk.“

Farþegi sem var í vélinni birti myndband á samfélagsmiðlum sem sýnir að ekkert hafi virkað í vélinni. Ekki var hægt að nota skjáinn, slökkt var á loftkælingu og engir takkar virkuðu. 

Gekk í áttina að sjúkrabíl

Myndband sem deilt var á samfélagsmiðlum sýnir Ramesh ganga í átt að sjúkrabíl. Ótrúlegt þykir að hann hafi komist lífs af.

Ekki er vitað hvað olli því að flugvélin hrapaði. Svarti kassi vélarinnar fannst á slysstað í dag og mun það geta veitt rannsakendum frekari upplýsingar.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert