Tíu látnir eftir flugskeytaárásir Írans

Viðbragðsaðilar að störfum í ísraelska þorpinu Tamra eftir árásir Írana …
Viðbragðsaðilar að störfum í ísraelska þorpinu Tamra eftir árásir Írana í nótt. AFP/Ahmad Gharabli

Að minnsta kosti tíu manns voru drepnir í flugskeytaárásum Írans á Ísrael í nótt, að sögn ísraelskra yfirvalda.

Í Íran lá reykjarslæða yfir höfuðborginni Teheran eftir að herþota Ísraels gerði árás á tvær olíubirgðastöðvar. Langar biðraðir hafa verið á bensínstöðvum í Íran undanfarna daga af ótta við eldsneytisskort.

Reykur frá olíubirgðastöð í Teheran eftir árás Ísraela.
Reykur frá olíubirgðastöð í Teheran eftir árás Ísraela. AFP/Atta Kenare

Sagði Bandaríkin ekki tengjast árásum

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í morgun að stjórnvöld í Washington tengdust á engan hátt sprengjuárásum Ísraela á Íran sem hófust snemma á föstudaginn.

Trump sagðist þó ætla að bregðast við af fullum krafti ef Íran ræðst á bandarísk skotmörk. Í færslu á Truth Social sagði hann jafnframt að „við getum auðveldlega náð samningi á milli Írans og Ísraels til að binda enda á þessi blóðugu átök!!!”

Kona flutt á sjúkrabörum í Bat Yam, suður af Tel …
Kona flutt á sjúkrabörum í Bat Yam, suður af Tel Aviv. AFP/Jack Guez

Ísraelska lögreglan sagði að sex manns hefðu verið drepin og að minnsta kosti 180 særst eftir flugskeytaárás á Bat Yam, skammt frá borginni Tel Aviv.

Lofthelgin yfir Ísrael verður lokuð í dag, þriðja daginn í röð, vegna flugskeytaárásanna frá Íran.

Sendiherra Írans hjá Sameinuð þjóðanna segir að 78 manns hafi verið drepin og 320 særst í árásum Ísraela á föstudaginn.

Írönsk yfirvöld höfðu í morgun ekki greint frá heildarfjölda látinna eftir árásir Ísraela síðustu daga. Þau segja Ísraela þó hafa drepið háttsetta hershöfðingja og kjarnorkuvísindamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert