Tæplega þrítugur maður hlaut í dag 18 ára fangesisdóm fyrir Héraðsdómi Södertörn, bæjar rúmlega 20 kílómetra suður af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, þar sem ákæruatriðin við meðferð málsins voru tilraun til manndráps, að valda öðrum lífsháska auk grófs vopnalagabrots.
Hafði maðurinn sér það til saka unnið að storma grímuklæddur inn á rakarastofu í Sätra Centrum, verslunarmiðstöð Skärholmen, síðdegis 1. nóvember og hleypa þar fjölda skota af skotvopni er hann bar. Átta manns voru staddir inni á stofunni þegar atburðurinn átti sér stað, viðskiptavinir og starfsfólk, og voru tveir eldri menn fluttir á sjúkrahús með skotsár á útlimum.
Fjöldi gesta verslunarmiðstöðvarinnar heyrði skothvelli á stofunni og bárust lögreglu þá þegar tilkynningar um málið. Kom hún á staðinn með mikinn viðbúnað auk þess sem sjúkrabifreiðar komu aðvífandi og sjúkraþyrla.
Þrátt fyrir að sár mannanna tveggja væru ekki lífshættuleg taldi dómari háttsemi ákærða hafa verið háskalega lífi þeirra er á rakarastofunni voru og hefði ásetningur hans staðið til þess að verða fólki þar að bana. Þá leit dómari svo á að hegðun mannsins hefði einkennst af hreinu tillitsleysi auk þess er hann hefði lagt á ráðin um hana áður en hann lét til skarar skríða.
Játaði sakborningur við meðferð málsins að árás hans hefði verið gerð gegn greiðslu.
Taldi dómari 18 ára fangelsi hæfilega refsingu fyrir háttsemina auk þess sem honum var gert að greiða þeim er hann misgerði við til samans 500.000 sænskar krónur, jafnvirði 6,5 milljóna íslenskra króna.
Kristofer Stahre, sem annaðist málsvörn hins dæmda fyrir héraðsdómi, segir í viðtali við tímaritið Mitti að þeir skjólstæðingur hans hyggist ekki áfrýja niðurstöðu dómsins á þeirri forsendu að skotmaðurinn hafi viðurkennt þá háttsemi er honum var borin á brýn auk þess sem hann hafi sloppið við lífstíðardóm sem var krafa saksóknara.