Rússar lesa Ísraelum pistilinn

Loftvarnakerfi í ísraelsku höfuðborginni Tel Aviv bregst við aðvífandi flugskeytum …
Loftvarnakerfi í ísraelsku höfuðborginni Tel Aviv bregst við aðvífandi flugskeytum frá Írönum í kvöld, en loftárásirnar hafa gengið á víxl síðan Ísraelar réðust á Íran á föstudaginn. AFP/Menahem Kahana

Rússneska utanríkisráðuneytið krafðist þess í dag að Ísraelar létu þegar af því sem ráðuneytið kallar ólöglegar árásir á kjarnorkumannvirki í Íran, en í brýnu sló milli Írana og Ísraela á föstudag er þeir síðarnefndu hófu loftárásir á þennan erkióvin sinn með það fyrir augum að gera Írönum skráveifu við meinta kjarnorkuvopnaáætlun þeirra sem þeir þó sverja af sér.

Segir í yfirlýsingu rússneska ráðuneytisins að ákafar árásir Ísraela á kjarnorkumannvirki, sem rekin séu í friðsamlegum tilgangi, séu brot gegn alþjóðalögum sem hafi í för með sér óviðunandi ógn við öryggi alþjóðasamfélagsins og þrýsti heiminum fram á ystu nöf kjarnorkuhörmungar.

Ákallar ráðuneytið ísraelsk stjórnvöld um að hætta árásum sínum tafarlaust á kjarnorkumannvirki sem lúti eftirliti Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA.

Bíða þess að Trump ákveði sig

Rússar ásaka enn fremur ónefnd vestræn ríki í erindi sínu um að bregðast við væringum ríkjanna tveggja með því að snúast á sveif með Ísraelum í tækifærismiðuðum tilgangi þess að skara eldi að eigin köku á pólitíska sviðinu sem aldrei geti orðið alþjóðasamfélaginu annað en rándýrt.

Sjíamúslimar á vegum samtakanna Majlis Wahdat-e-Muslimeen (MWM) brenna fána Bandaríkjanna …
Sjíamúslimar á vegum samtakanna Majlis Wahdat-e-Muslimeen (MWM) brenna fána Bandaríkjanna og Ísraels í mótmælum á götu í pakistönsku höfuðborginni Islamabad í dag, 17. júní. AFP/Aamir Qureshi

Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN hafði það í kvöld eftir hátt settum og ónafngreindum ísraelskum embættismanni að nú biðu ísraelsk stjórnvöld með eftirvæntingu eftir viðbrögðum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um hvort hann hyggist aðstoða bandalagsþjóð sína, Ísraela, við að „ljúka verkinu“, það er að segja leggja þeim lið við að berja kjarnavopnaþróun Írana niður.

„Við bíðum ákvörðunar forsetans,“ sagði heimildamaðurinn við CNN, en vitað er að bandarískir og ísraelskir embættismenn hafa ítrekað stungið saman nefjum síðustu daga um hugsanlegt samstarf þjóðanna tveggja gegn Írönum sem eru bandarískum stjórnvöldum lítt þóknanlegir fyrir fornar sakir.

Gíslatökumálin og slátrunin í London

Hafa Bandaríkjamenn haft horn í síðu klerkastjórnarinnar í Íran allar götur síðan í gíslatökumálinu fyrir hartnær hálfri öld, en það var í byrjaðan nóvember 1979 sem íranskir stúdentar réðust vopnaðir inn í bandaríska sendiráðið í írönsku höfuðborginni Teheran og tóku starfsmenn þar í gíslingu og fjölskyldur þeirra.

Var það ekki fyrr en 444 dögum síðar sem rúmlega 52 gíslum var sleppt úr haldi, en innrás stúdentanna í sendiráðið átti sér stað nokkrum mánuðum eftir að klerkurinn Ayatollah Khomeini tók völdin í Íran af Mohammad Reza Pahlavi keisara, en Khomeini þóttu vesturveldin gera sig heldur digur í Íran við að hafa stjórn á olíuauðlindum landsins.

Olía á eld þessarar kergju Írans og vestursins var svo innrás sex Írana í íranska sendiráðið í London 30. apríl 1980 til að þrýsta á um sjálfstæði Khuzestan-héraðsins í Íran með gíslatöku sem stóð þó mun skemur en í Teheran, eða til 5. maí. Réðu árásarmennirnir þá einn gíslanna af dögum að kvöldi dags og vörpuðu líki hans út á götu sem olli harkalegum viðbrögðum breskra stjórnvalda.

Íranska sendiráðið við Prince's Gate í London var í rúst …
Íranska sendiráðið við Prince's Gate í London var í rúst eftir leifturárás SAS-sérsveitar breska flughersins að kvöldi 5. maí 1980 og var ekki unnt að taka bygginguna í notkun á ný þar til árið 1993. Ljósmynd/Wikipedia.org

Komst heimsbyggðin að því þetta kvöld að sérsveit breska flughersins, SAS, eða Special Air Service, fyrirfannst, en lítið hafði farið fyrir henni opinberlega fram að því. Réðust sérsveitarmenn inn í sendiráðið af þaki þess og gegnum glugga í aðgerðinni Operation: Nimrod og komu gíslatökumönnum algjörlega í opna skjöldu. Voru fimm af öllum sex stráfelldir á 17 mínútum án þess að fá nokkurn tímann rönd við reist, en einn gíslanna týndi lífi meðan á skammvinnum bardaganum stóð. Húsnæði sendiráðsins var gjörsamlega lagt í rústir við leifturárás SAS-liða og var ekki nothæft á ný fyrr en árið 1993.

Varð aðgerðin vatn á myllu ríkisstjórnar Margrétar Thatcher auk þess sem SAS-sveitin hlaut gríðarlega athygli um allan heim og streymdu beiðnir til hennar frá ríkisstjórnum hvaðanæva um að taka að sér kennslu og þjálfun sérsveita.

CNN

Al Jazeera

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert