Tveir bæjarstjórar myrtir á tveimur dögum

Þjóðvarðliður í bænum Tacambaro í Mexíkó, þar sem enn annars …
Þjóðvarðliður í bænum Tacambaro í Mexíkó, þar sem enn annars bæjarstórinn var myrtur 6. júní. AFP/Enrique Castro

Martha Laura Mendoza, bæjarstjóri í Tepalcatepec í mexíkóska ríkinu Michoacan, var ráðin af dögum í dag.

Er þetta annar dagurinn í röð þar sem bæjarstjóri er myrtur í Mexíkó.

Fyrrverandi bæjarstjóri þar, Guillermo Valenia, sagðist hafa heimildir fyrir því að ráðist hefði verið á Mendoza og eiginmann hennar þegar þau voru að yfirgefa heimili sitt í dag.

Bænum hefur verið haldið í heljargreipum glæpagengja í nærri því tvo áratugi. 

Annar bæjarstjóri drepinn í gær

Í gær ruddust fjórir vopnaðir menn inn á skrifstofu bæjarstjóra í bænum San Mateo Pinas í ríkinu Oaxaxa.

Mennirnir skutu og myrtu bæjarstjórann, Lilia Garcia, og starfsmann á vettvangi. 

Tugir embættismanna hafa hlotið sömu örlög á undanförnum árum í Mexíkó, þar sem valdamikil glæpagengi svífast einskis til að fá sínu framgengt.

Ofbeldið hefur verið áberandi í minni bæjum landsins en hefur einnig breiðst til höfuðborgarinnar, Mexíkóborgar, þar sem tveir nánir samstarfsmenn borgarstjórans voru myrtir fyrir um það bil mánuði síðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert