Milljón manns fengu margfaldar bætur

Lotte Øverbye Iversen fékk bæturnar sínar sex sinnum í morgun …
Lotte Øverbye Iversen fékk bæturnar sínar sex sinnum í morgun þótt hún fengi ekki að halda fimm af þeim millifærslum. Bilun hjá DNB olli skammvinnu ríkidæmi milljón Norðmanna. Skjáskot/NRK

Ein milljón norskra bóta- og eftirlaunaþega í viðskiptum við DNB-bankann þarlenda vaknaði upp við góðan – en skammvinnan – draum í morgun þegar vinnumálastofnunin NAV greiddi út bætur sínar.

Vegna kerfisvillu hjá bankanum komu færslurnar frá NAV allt að sex sinnum í röð inn á bankareikninga skjólstæðinga stofnunarinnar og náði bilun þessi í tölvukerfum bankans til alls tveggja milljóna færslna.

Nývaknaðir Norðmenn töldu sig því margir hverjir hafa dottið hressilega í lukkupottinn og hefur vafalítið einhverjum flogið í hug að NAV, ein af umdeildari stofnunum Noregs fyrir ýmsar sakir, hafi loksins ákveðið að fara að greiða út almennilegar bætur.

Fékk sexfaldar bætur

Til dæmis Lotte Øverbye Iversen taldi sig hafa himin höndum tekið þegar hún las sex stafa tölu í norskum krónum af banka-appinu í símanum sínum með morgunkaffinu. Bótagreiðslan hennar, 33.093 krónur, sem jafngildir 410.386 íslenskum krónum, kom svo ítrekað inn á reikninginn að þar voru um skamma hríð rúmlega 200.000 norskar krónur, tæplega 2,5 milljónir íslenskar.

„Um ein milljón manns varð fyrir barðinu á biluninni,“ segir Vidar Korsberg Dalsbø, upplýsingafulltrúi í DNB, við norska ríkisútvarpið NRK, en ekki leið á löngu uns tæknimenn réðu bót á ástandinu og innistæður reikninga leiðréttust.

Annar hópur fékk hins vegar ekki bæturnar sínar, en er fullvissaður um að þær komi í fyrramálið í staðinn.

Þá kom upp bilun hjá öðrum norskum banka í morgun, Sparebank1, sem lýsti sér þannig að upplýsingar um innborganir vantaði í netbanka viðskiptavina þótt greiðslur hefðu skilað sér inn á reikninginn. Sagði upplýsingafulltrúi þar, Christine Meling Christensen, við NRK í morgun að unnið væri að úrbótum þessa og bankinn bæðist forláts.

NRK

TV2

Dagens Næringsliv

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert