Maxim Reshetnikov efnahagsráðherra Rússlands segir efnahag landsins vera á niðurleið.
Hagkerfi Rússa hefur einkennst af óstöðugleika síðan þeir réðust inn í Úkraínu árið 2022 og er það nú á niðurleið á ný, eftir það sem sérfræðingar kalla ýkta uppsveiflu á árunum 2023 og 2024, aðallega vegna mikilla útgjalda ríkisins til varnarmála.
Hagfræðingar hafa aftur á móti sagt að vöxtur sem til kemur vegna varnarmála sé óstöðugur og endurspegli ekki raunverulega stöðu mála.
„Yfirhöfuð tel ég okkur vera á barmi kreppu,“ sagði Reshetnikov við blaðamenn á ráðstefnu í Pétursborg í Rússlandi.
„Allt annað fer eftir okkar ákvörðunum,“ bætti hann við og hvatti Seðlabankann til að sýna hagkerfinu smá umhyggju.
Seðlabanki Rússlands hækkaði vexti upp í 21% í október til að sporna við verðbólgu og hélt þeim þar þangað til í byrjun júní, þegar hann lækkaði þá niður í 20%.
Hagfræðingar höfðu mánuðum saman varað við því að svona háir vextir og niðursveifla í framleiðslu landsins myndu leiða til erfiðleika í efnahagskerfinu.
Hagvöxtur Rússlands fór niður í 1,4% á fyrsta fjórðungi ársins, sá lægsti sem hann hefur verið í tvö ár.
Verð hefur einnig hækkað yfir landið sökum útgjalda ríkisins við stríðið í Úkraínu og skorts á vinnuafli.
Árleg verðbólga fór niður fyrir 10% í maí en hefur verið fyrir ofan 8%, sem hefur verið markmið Seðlabankans í rúmt ár.