Flugvél Air India sem hrapaði á íbúabyggð í Ahmedabad á Indlandi í síðustu viku hafði fengið gott viðhald, að því er fram kemur í yfirlýsingu flugfélagsins.
Vélin, sem var af gerðinni Boeing 787-8 Dreamliner, fórst skömmu eftir flugtak, með þeim afleiðingum að 242 farþegar og áhafnarmeðlimir létust, ásamt 38 á jörðu niðri. Einn komst lífs af úr slysinu.
Yfirvöld á Indlandi hafa enn ekki gefið út upplýsingar um hvað varð til þess að vélin fórst, en sérfræðingar hafa unnið að því að ná gögnum úr flugrita vélarinnar.
Samkvæmt Air India, hafði ekki verið tilkynnt um nein vandræði eða bilanir áður en vélin fór á loft
„Vélin hafði fengið gott viðhald og síðasta heildarskoðun var gerð á vélinni í júní árið 2023,“ segir í yfirlýsingu frá flugfélaginu.
„Hægri hreyfillinn var yfirfarinn í mars 2025 og sá vinstri var skoðaður í apríl 2025. Reglulegt eftirlit var með bæði vélinni og hreyflunum,“ segir þar jafnframt.
Fyrstu niðurstöður rannsókna hafa ekki varpað ljósi á að öryggi hafi verið með einhverjum hætti ábótavant, samkvæmt rannsóknarnefnd samgönguslysa á Indlandi.
Flugstjóri vélarinnar er sagður hafa verið reyndur og vanur því að fljúga vélum að þessari gerð.
Á meðan rannsókn á slysinu heldur áfram þá bíða ættingjar einhverra fórnarlamba enn eftir því að kennsl séu borin á líkamsleifar þeirra. Alls hafa verið borin kennsl á 210 með erfðaprófum.