Bandaríkjaforseti segir það koma í ljós á næstu tveimur vikum hvort Bandaríkin geri árás á Íran.
Karoline Leavitt, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, las upp skilaboð þess efnis frá forsetanum á blaðamannafundi í Washington í dag.
„Sé möguleiki á sáttamiðlun fyrir hendi, þá mun forsetinn ávallt taka því. Þrátt fyrir það er hann ekki hræddur við að sýna styrk í verki,“ sagði Leavitt jafnframt.
Þá ítrekaði hún að Bandaríkjastjórn teldi að Íran gæti komið sér upp kjarnorkuvopnum á næstu vikum. Íran hefur neitað því að stjórnvöld þar standi fyrir slíkri þróun.
Trump sagði áður að fulltrúar Írans hefðu leitað eftir því að senda erindreka til Hvíta hússins í Washington í þeim tilgangi að semja um sína stöðu í kjarnorkumálum. Frá þessu greindi Trump á miðvikudaginn. Íranir hafa hins vegar tekið fyrir þetta.
Ýmsir lykilmenn MAGA-hreyfingarinnar svokölluðu (Make America Great Again) hafa opinberlega andmælt því að Bandaríkin blandi sér með beinum hætti í átök ríkjanna við botn Miðjarðarhafs. Steve Bannon, fyrrum ráðgjafi Trump, og Tucker Carlson fjölmiðlamaður eru þar á meðal.