Ísraelsmenn áætla að árásir þeirra á kjarnorku- og hernaðarinnviði í Íran hafi tafið möguleika klerkastjórnarinnar í Íran á því að þróa kjarnorkuvopn um „að minnsta kosti tvö eða þrjú ár.“
Þetta sagði Gideon Saar, utanríkisráðherra Ísraels, í viðtali við þýska dagblaðið Bild.
Árásir Ísraels, sem hafa beinst að kjarnorku- og hernaðarinnviðum ásamt herforingjum og kjarnorkuvísindamönnum, hafa skilað „mjög mikilvægum“ árangri, sagði Gideon Saar.
„Samkvæmt mati sem við höfum fengið þá höfum við nú þegar tafið möguleika þeirra á að búa til kjarnorkusprengju um að minnsta kosti tvö eða þrjú ár,“ sagði Saar.
„Sú staðreynd að við höfum tekið úr leik þá einstaklinga sem leiddu og ýttu á vopnvæðingu kjarnorkuáætlunarinnar er gríðarlega mikilvæg,“ sagði hann við Bild.
Hann segir árangurinn vera mikinn en að ísraelsk stjórnvöld muni ekki hætta fyrr en ógnin verður alfarið fjarlægð.