Lagafrumvarp sem myndi heimila dánaraðstoð í Bretlandi var samþykkt í neðri deild breska þingsins í dag með 314 atkvæðum gegn 291.
Stuðningsmenn frumvarpsins söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið í kjölfarið og fögnuðu áfanganum.
Segja þeir meðal annars að verði frumvarpið að lögum muni það gera fólki með ólæknandi sjúkdóma kleift að enda eigið líf með reisn.
Frumvarpið og dánaraðstoð almennt eru umdeild en hópur mótmælti frumvarpinu á sama tíma og stuðningsmenn fögnuðu því.
Þeir sem eru á móti frumvarpinu óttast að viðkvæmt fólk geti verið þvingað til þess að enda eigið líf og hvetja stjórnvöld frekar til að efla líknandi meðferð heldur en að leyfa dánaraðstoð.
Lögin myndu leyfa fullorðnu fólki í Englandi og Wales, sem talið er eiga minna en hálft ár ólifað, að taka eigið líf með aðstoð lækna.
Sjúklingarnir myndu sjálfir þurfa að taka inn efnið sem myndi enda líf þeirra og þyrfti sú ákvörðun að vera samþykkt af tveimur læknum og nefnd sérfræðinga.
Frumvarpið verður ekki að lögum nema það verði samþykkt af efri deild þingsins og verður það líklega ekki tekið þar fyrir fyrr en í haust. Ef það nær í gegn gæti samt tekið fjögur ár að innleiða lögin.
Samkvæmt núgildandi lögum er hámarksrefsing fyrir að veita dánaraðstoð 14 ár í fangelsi, í Englandi, Wales og á Norður-Írlandi.