Alríkisdómari fellir ákvörðun Trumps úr gildi

Trump hefur staðið í ströngu við Harvard háskóla.
Trump hefur staðið í ströngu við Harvard háskóla. AFP

Allison Burroghs, alríkisdómari í Boston, hefur fellt úr gildi ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að heimila Harvard-háskóla ekki að taka á móti erlendum nemendum.

Munu erlendir nemar nú geta stundað nám við skólann á meðan að málsókn Harvard gegn ríkisstjórn Trumps er til meðferðar fyrir dómstólum. 

Trump hefur staðið í miklum deilum við forsvarsmenn Harvard síðustu vikur. Í upphafi mánaðar var greint frá því að Trump hefði meinað erlendum nemendum sem ætluðu að stunda nám við Harvard um vegabréfsáritanir. Sagði hann nemendurna ógna þjóðaröryggi landsins. 

Fjórðungur allra nemenda

Talaði Trump einnig um að afturkalla vegabréfsáritanir erlendra nemenda sem höfðu þegar hafið nám sitt við skólann. Erlendir nemendur voru ríflega fjórðungur þeirra sem stunduðu nám við Harvard á nýliðnu skólaári. Eru þeir því mikilvæg tekjulind fyrir skólann. 

Bandarísk stjórnvöld hafa þegar skorið niður alríkisstyrki til Harvard um 3,2 milljarða dollara. Hafa þau einnig sagst ætla að útiloka skólann frá öllum framtíðarfjárveitingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert