Ísraelski herinn greindi frá því í morgun að háttsettur íranskur embættismaður, Mohammad Saeed Izadi, hefði fallið í loftárás í Qom-héraði suður af höfuðborginni Tehran.
Er hann sagður hafa stýrt hernaðarsamvinnu íranskra stjórnvalda og palestínsku Hamas-samtakanna.
„Ísraelskar orrustuþotur réðust til atlögu í Qom-héraði og felldu yfirmann Palestínudeildar byltingavarðliðanna og lykiltengilið íranskra yfirvalda við Hamas-samtökin, Saeed Izadi,“ segir í yfirlýsingu frá ísraelska hernum.
Árásir hafa gengið á víxl á milli Ísrael og Íran, frá því Ísrael hóf árásir á kjarnorkuinnviði Írana á föstudaginn fyrir viku síðan.
Ísraelar vilja meina að þeir hafi fellt fleiri háttsetta embættismenn í árásunum í morgun, en það hefur ekki verið staðfest.