Hakan Fidan, utanríkisráðherra Tyrklands, sakaði Ísrael á laugardag um að leiða Mið-Austurlönd að „algjörum hörmungum“ með því að hefja loftárásir á Íran þann 13. júní.
„Ísrael er nú að draga svæðið inn í algjörar hörmungar með árásum sínum á Íran, nágranna okkar,“ sagði Fidan á ráðstefnu Samtaka íslamskrar samvinnu (OIC) sem stendur yfir í Istanbúl.
Fidan hélt því jafnframt fram að vandamálið í Mið-Austurlöndum væri ekki bundið við Palestínu, Líbanon, Sýrland, Jemen eða Íran. „Vandinn liggur augljóslega hjá Ísrael.“
Hann kallaði eftir því að látið yrði af árásum gegn Íran. „Við verðum að koma í veg fyrir að ástandið þróist í vítahring ofbeldis, sem myndi ógna enn frekar öryggi á svæðinu, sem og í heiminum öllum.“
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ávarpaði ráðstefnuna í gær og sagði átökin á milli Íran og Ísrael vera að nálgast þann tímapunkt að ekki yrði aftur snúið.
„Þessu brjálæði verður að ljúka eins fljótt og mögulegt er,” bætti hann við og varaði við afleiðingunum sem átökin gætu haft á svæðið, en einnig Evrópu og Asíu.