Vilja tilnefna Trump til friðarverðlauna Nóbels

Trump greindi frá vopnahléi á milli Indlands og Pakistans í …
Trump greindi frá vopnahléi á milli Indlands og Pakistans í maímánuði þegar ríkin höfðu skipst á árásum í fjóra daga. AFP/Michael Ngan

Yfirvöld í Pakistan hafa ákveðið að tilnefna Donald Trump Bandaríkjaforseta til friðarverðlauna Nóbels fyrir framlag sitt í friðarviðræðum Pakistans og Indlands, að því er Reuters greinir frá.

Telja Pakistanar Trump hafa sýnt af sér mikla framsýni og „framúrskarandi stjórnmálahæfileika“ með því að hafa komið að friðarviðræðum milli ríkjanna. Trump greindi frá vopnahléi á milli Indlands og Pakistans í maímánuði þegar ríkin höfðu skipst á árásum í fjóra daga. 

„Þessi íhlutun stendur sem vitnisburður um hlutverk hans sem sannur friðarsáttasemjari,“ sagði í tilkynningu um málið frá Pakistan. 

Forsvarsmenn Indlands eru ekki á sama máli og telja íhlutun Trumps hafa haft lítið með vopnahléið að gera.

Telja þeir að um tvíhliða samkomulag milli herja Indlands og Pakistans hafi verið um að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert