Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Íran, að segir að Bandaríkin og Ísrael hafi „ákveðið að sprengja upp“ samningaleiðina þegar gerðar voru árásir á kjarnorkuinniviði í Íran.
Árásirnar í nótt hafi verið „svívirðilegar og muni hafa afleiðingar til frambúðar.“
Þetta kemur fram í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum X.
Þar bregst hann einnig við orðum leiðtoga ríkja Evrópu sem margir hverjir hafa hvatt Írana til að snúa aftur að samningaborðinu og halda áfram samtali um kjarnorkuáætlun sína.
Araghchi spyr hvernig Íranar geti „snúið aftur að einhverju sem þeir yfirgáfu aldrei.“
Þá segir hann að árásir Bandaríkjamanna í nótt sýni að stjórnvöld í Washington muni ekki víla fyrir sér að fremja glæpi eða beita ólöglegum aðferðum í stuðningi sínum við Ísrael.
Íranar hafi rétt til þess að verja fullveldi sitt.
Og í morgun svöruðu þeir fyrir sig með loftárásum á ísraelsku borgirnar Tel Aviv og Haifa. Mikil eyðilegging blasir við eftir árásirnar og á þriðja tug særðust.