Árásin mikið áhyggjuefni

Þorgerður segir það stórslys ef Íranar eignist kjarnorkuvopn.
Þorgerður segir það stórslys ef Íranar eignist kjarnorkuvopn. mbl.is/Eyþór

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir árás Bandaríkjanna á Íran í nótt mikið áhyggjuefni hvað varðar þróun mála í átökum Írans og Ísrael. Hún segir að þessi átök verði ekki leyst með hernaðaraðgerðum heldur þurfi ríkin að koma saman að samningsborðinu og semja um frið. 

Á sama tíma segir Þorgerður að hún telji það ekki heimsbyggðinni til framdráttar að Íranar eignist kjarnorkuvopn en Bandaríkjaher gerði árásir á þrjá staði í Íran þar sem þeir hafa kjarnorkustarfsemi sína. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að helstu kjarnorkumiðstöðvum Írana hafi verið tortímt í árásunum í nótt.

„Við höfum lagt áherslu á, eins og önnur Norðurlönd, að þetta verður ekki leyst með hernaði. Þetta verður að leysa með samningaviðræðum og öflugum diplómatískum leiðum,“ segir Þorgerður. 

„Það er knýjandi nauðsyn að fá Írana að samningsborðinu af því það væri stórslys ef þeir myndu eignast kjarnorkuvopn.“

Höfða þurfi til skynsemi hluteigandi aðila

Þorgerður segir nauðsynlegt að leiðtogar annarra þjóða skapi þrýsting og reyni að höfða til skynsemi leiðtoga Ísraels, Írana og Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir frekari átök á svæðinu. Áframhaldandi eða versnandi átök muni að lokum bitna verst á almennum borgurum.

Spurð hvort Ísland geti að einhverju leyti beitt sér í þessum átökum segir Þorgerður: 

„Ég held að það sem við getum gert er að beita rödd okkar og skapa þrýsting með líkt þenkjandi þjóðum sem eru allar að draga fram hættuna á því að þetta stigmagnist. Ekki bara fyrir ástandið í Miðausturlöndum heldur líka fyrir heiminn allan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert