Bandaríkjunum verði svarað fyrir árásirnar

Masoud Pezeshkian, forseti Írans.
Masoud Pezeshkian, forseti Írans. AFP/Skrifstofa forseta Írans

Masoud Pezeshkian, forseti Írans, segir brýnt að Bandaríkjamönnum verði svarað fyrir loftárásir á kjarnorkuinnviði í Íran.

Þessu greinir ríkisfjölmiðill Írans (IRNA) frá og vitnar í símtal á milli Pezeshikian og Emmanuels Macrons, forseta Frakklands.

„Bandaríkjamenn verða að fá svar við árás sinni,“ er haft eftir íranska forsetanum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar þjóð sína í Hvíta húsinu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar þjóð sína í Hvíta húsinu. AFP/Carlos Barria

Verja sig með öllum tiltækum ráðum

Esmaeil Baqaei, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, segir að ríkið sé tilbúið að verja sig með öllum tiltækum ráðum, í kjölfar loftárásanna.

„Íran er staðráðið í að verja fullveldi sitt, landhelgi, þjóðaröryggi og þjóð með öllum tiltækum ráðum,“ skrifar Baqaei á samfélagsmiðlinum X.

Fordæmir hann árásirnar og lýsir þeim sem óskiljanlegum af hendi ríkis, sem hafi í vopnabúri sínu kjarnorkuvopn, gegn ríki sem eigi engin slík vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert