Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, hvatti írönsk stjórnvöld til að snúa aftur að samningaborðinu og semja um kjarnorkuáætlun sína eftir árásir Bandaríkjamanna á kjarnorkuinnviði í landinu í nótt.
„Íran má aldrei fá að þróa kjarnorkuvopn og Bandaríkin hafa gripið til aðgerða til að draga úr þeirri ógn,“ skrifaði Starmer í færslu á samfélagsmiðlinum X.
Hann bætti við að „stöðugleiki á svæðinu sé forgangsmál“.
Hvatti hann Írana til að leita að diplómatískri lausn til að binda endi krísuna.
Kaja Kallas, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hvatti á sunnudag til þess að dregið yrði úr stigmögnun átaka og að snúið yrði aftur að samningaborðinu, eftir árásirnar.
„Ég hvet alla aðila til taka skref til baka, snúa aftur að samningaborðinu og koma í veg fyrir frekari stigmögnun átaka“ skrifaði Kallas á samfélagsmiðlinum X.
Hún lagði jafnframt áherslu á það, líkt og Starmer, að Íran megi ekki fá að þróa kjarnorkuvopn. Sagði hún utanríkisráðherra Evrópusambandsins ætla ræða málið á fundi á mánudag.
Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, kallar einnig eftir því að Íranar snúi aftur að samningaborðinu.
Talsmaður hans sagði Írana verða að „hefja strax aftur samningaviðræður við Bandaríkin og Ísrael og finna diplómatíska lausn á átökunum.“
Talsmaðurinn tók jafnframt fram að þýska ríkisstjórnin teldi að stór hluti kjarnorkuáætlunar Írana hefði verið eyðilagður í loftárásunum í nótt.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagðist í færslu á X uggandi yfir árásum Bandaríkjamanna og sagði þær „hættulega stigmögnun á svæði sem væri nú þegar á brúninni.“
Hann sagði að á þessum tímapunkti væri mikilvægt að forðast að valda meiri glundroða. Það væri engin hernaðarleg lausn í stöðunni, aðeins diplómatísk leið fram á við. „Eina vonin er friður,“ skrifaði Guterres.
Fréttin hefur verið uppfærð.