Trump daðrar við stjórnarskipti í Íran

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, vill að Íran verði stórkostlegt land.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, vill að Íran verði stórkostlegt land. AFP/Brendan Smialowski

Á sama tíma og Donald Trump Bandaríkjaforseti fagnar heimkomu orrustuflugmanna bandaríska hersins daðrar hann við stjórnarskipti í Íran.

Í nýlegri færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social segir hann að ef núverandi stjórn Írans geti ekki gert Íran stórkostlegt aftur, hvers vegna ættu ekki að verða þar stjórnarskipti.

Vitnar hann þar í slagorð sitt um að gera Bandaríkin stórkostleg á ný: „Make America Great Again“ eða MAGA, en segir þess í stað „Make Iran Great Again“ eða MIGA.

B-2-flugmennirnir lentir í Bandaríkjunum

Í annarri færslu fagnar hann heimkomu orrustuflugmanna bandaríska hersins.

„FRÁBÆRU B-2-flugmennirnir eru örugglega lentir í Missouri. Takk fyrir vel unnin störf,“ segir hann meðal annars í færslunni.

Trump segir einnig á sama miðli skaðann sem hafi orðið á kjarnorkuinnviðum Írans vera gríðarlegan. Hann bætir við að höggið hafi verið hart og nákvæmt og að herinn hafi sýnt mikla verkkunnáttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert