Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að helstu kjarnorkumiðstöðvum Írana hafi verið tortímt í loftárásum sem Bandaríkjaher gerði á Íran í nótt.
Hann segir skotmörkin þó vera fleiri og hótar frekari árásum semji stjórnvöld í Íran ekki um frið.
Þetta kom fram í ávarpi sem hann flutti klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma.
Í færslu á samfélagsmiðlum eftir ávarpað varaði Trump Írana einnig við því að ef þeir myndu hefna árása Bandaríkjanna yrði því mætt af enn meiri hörku en í nótt.
Áður hafði hann greint frá því á samfélagsmiðli sínum Truth Social að Bandaríkin hefðu gert loftárásir á þremur stöðum í Íran. Sagði hann þar meðal annars að „fullum skammti“ af sprengjum hefði verið varpað á Fordo, þar sem helsti hluti kjarnorkuáætlunar Íran er talinn staðsettur djúpt í jörðu.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, óskaði Trump til hamingju í nótt með „djarfar“ árásir Bandaríkjahers á kjarnorkumiðstöðvar Írans.
Hann sagði árásirnar jafnframt gerðar í fullu samráði og samstarfi við Ísrael. Hann hefði nú uppfyllt loforð sitt um að tortíma kjarnorkuáætlun Írans.