Markmið árásar Bandaríkjanna á Íran var að eyðileggja eða veikja kjarnorkuáætlun Írans verulega. Þetta kom fram í máli Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi um árásina.
Hegseth sagði árás Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafa verið „djarfa“ og „snilldarlega“. Jafnframt sagði hann að Bandaríkin væru ekki að leitast eftir stríði en ef ráðist yrði á bandarísk skotmörk myndu Bandaríkin svara fyrir sig af fullum þunga.
„Trump leitar friðar og Íran ætti að velja þá leið,“ sagði Hegseth.
Dan Caine, æðsti herforingi Bandaríkjanna, var einnig viðstaddur blaðamannafundinn þar sem hann fór út í smáatriði um aðgerðina.
Sprengt var á þremur stöðum í Íran þar sem Íranar hafa kjarnorkustarfsemi sína. Það er í Fordo, þar sem helsti hluti kjarnorkuáætlunar Írans er talinn vera staðsettur, auk þess sem sprengjum var varpað á Narans og Isfan.
Caine sagði að miðað við fyrsta mat hafi allar sprengingarnar valdið „gríðarlegum skemmdum og eyðileggingu.“
Fór hann jafnframt yfir tímasetningu árásarinnar en á föstudag lögðu B-2 sprengiþotur af stað frá Bandaríkjunum. Nokkrar þotur lögðu leið sína í átt að Vestur-Kyrrahafi til að beita blekkingum, eins og Caine orðaði það.
„Um það bil klukkan 18:40 að austurtíma varpaði fremsta B-2 þotan tveimur GBU-57 sprengjum við skotmörk sín við Fordo. Öll þrjú kjarnorkumannvirki Írans voru sprengd á milli klukkan 18:40 og 19:05 að austurtíma,“ sagði Caine.