„Trump leitar friðar“

Hegseth og Caine fóru yfir árásina á blaðamannafundi.
Hegseth og Caine fóru yfir árásina á blaðamannafundi. AFP/Andrew Harnik

Markmið árásar Bandaríkjanna á Íran var að eyðileggja eða veikja kjarnorkuáætlun Írans verulega. Þetta kom fram í máli Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi um árásina. 

Hegseth sagði árás Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafa verið „djarfa“ og „snilldarlega“. Jafnframt sagði hann að Bandaríkin væru ekki að leitast eftir stríði en ef ráðist yrði á bandarísk skotmörk myndu Bandaríkin svara fyrir sig af fullum þunga.

„Trump leitar friðar og Íran ætti að velja þá leið,“ sagði Hegseth. 

Kjarnorkumannvirkin sprengd á 25 mínútum

Dan Caine, æðsti herforingi Bandaríkjanna, var einnig viðstaddur blaðamannafundinn þar sem hann fór út í smáatriði um aðgerðina. 

Sprengt var á þremur stöðum í Íran þar sem Íranar hafa kjarnorkustarfsemi sína. Það er í Fordo, þar sem helsti hluti kjarnorkuáætlunar Írans er talinn vera staðsettur, auk þess sem sprengjum var varpað á Narans og Isfan. 

Caine sagði að miðað við fyrsta mat hafi allar sprengingarnar valdið „gríðarlegum skemmdum og eyðileggingu.“

Fór hann jafnframt yfir tímasetningu árásarinnar en á föstudag lögðu B-2 sprengiþotur af stað frá Bandaríkjunum. Nokkrar þotur lögðu leið sína í átt að Vestur-Kyrrahafi til að beita blekkingum, eins og Caine orðaði það. 

„Um það bil klukkan 18:40 að austurtíma varpaði fremsta B-2 þotan tveimur GBU-57 sprengjum við skotmörk sín við Fordo. Öll þrjú kjarnorkumannvirki Írans voru sprengd á milli klukkan 18:40 og 19:05 að austurtíma,“ sagði Caine.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert