Stjórnarandstaða Íran: „Okkar Berlínarmúrsstund“

Reza Pahlavi hélt blaðamannafund í París í dag en hann …
Reza Pahlavi hélt blaðamannafund í París í dag en hann er lykilmaður í stjórnarandstöðu Írans. AFP

Evrópa og Bandaríkin ættu ekki að veita írönskum stjórnvöldum undir forystu Ayatollah Ali Khamenei líflínu með viðræðum við þau. Þetta segir Reza Pahlavi, fyrrverandi krónprins Írans.

Pahlavi, sem nú er búsettur í Bandaríkjunum og er lykilmaður í stjórnarandstöðu Írans, er sonur Mohammad Reza Pahlavi, fyrrverandi Íranskeisara, sem gerður var útlægur frá landinu eftir að honum var steypt af stóli í íslömsku byltingunni árið 1979.

„Ég get varla ímyndað mér að stjórnarvöld sem eru orðin verulega veikburða og hafa verið svo gott sem auðmýkt séu í skapi fyrir frekari viðræður,“ sagði Reza Pahlavi í viðtali við AFP-fréttastofuna í París í dag.

Endalokin nærri

Þá sagði hann að íslamska lýðveldið og æðsti erindreki þess, Abbas Araghchi, sem átti í viðræðum við evrópska utanríkisráðherra í Sviss á föstudag, hefði „aftur og aftur“ verið „svikull“ í samningaviðræðum.

„Þetta stjórnarfar er að hrynja... Þið getið flýtt fyrir því með því að standa með þeim [írönsku þjóðinni] að þessu sinni, ekki kasta þessum stjórnvöldum annarri líflínu til að lifa af,“ sagði Pahlavi og bætti við:

„Endalok þessara stjórnvalda eru nærri... þetta er okkar Berlínarmúrsstund.“

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti klerkur Írans.
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti klerkur Írans. AFP

Segir æðstu ráðamenn reyna að flýja landið

Ísrael hóf loftárásir á Íran 12. júní í þeim tilgangi að veikja kjarnorku- og skotflaugaáætlanir landsins. Bandaríkin skárust svo í leikinn um helgina með árásum sínum á kjarnorkumannvirki í Íran.

Óljóst er hvar Khamenei, æðsti klerkur landsins, er niðurkominn en ísraelsk yfirvöld hafa ekki útilokað að drepa hann.

Reza Pahlavi segir að hann hafi upplýsingar um að Khamenei sé staddur í neðanjarðarbyrgi „og noti því miður fólk sem mannlegt skjöld“.

Þá segist hann hafa fengið „trúverðugar upplýsingar“ um að æðstu embættismenn og fjölskyldumeðlimir æðsta klerksins væru að leita leiða til að flýja Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert