Donald Trump Bandaríkjaforseti fer mikinn á samfélagsmiðlinum Truth Social þar sem hann hefur birt fjölda færslna á stuttum tíma. Segir hann það að hann vonist til þess að Íranar séu búnir að fá sína útrás með árásinni á herstöð Bandaríkjamanna í Katar.
Segir hann árásina hafa verið „veika“ og að þrettán af fjórtán flugskeytum Írana á herstöðina hafi verið skotin niður. Flugskeytið sem ekki var skotið niður hafi fallið fjarri herstöðinni. „Þeir eru búnir að fá sýna útrás og vonandi verður ekki frekara hatur. Ég vil þakka Írönum fyrir að gefa okkur fyrirvara, sem gerði það að verkum að engin lést eða slasaðist,“ segir Trump um árásir Írana í Katar.
Lagði hann að lokum til að Íranir muni einblína á frið á svæðinu. Segist hann ætla að beita sér fyrir því sama gagnvart Ísraelsmönnum.