Ekki gert sem greiði við Bandaríkin

Friedrich Merz segir auknar fjárveitingar ekki til þess gerðar að …
Friedrich Merz segir auknar fjárveitingar ekki til þess gerðar að gera Trump til geðs. AFP/John MacDougall

Kanslari Þýskalands, Friedrich Merz, segir stefnu aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins um aukin útgjöld til varnarmála vera tilkomna til að mæta þeirri hernaðarógn sem stafar af Rússum, en ekki til að gera Bandaríkjamönnum greiða. 

„Við erum ekki að gera þetta, eins og sumir halda fram, til að gera Bandaríkjunum og forseta þeirra [Donald Trump] greiða,“ sagði Merz við þýska þingið áður en hann hélt af stað á leiðtogafund NATO í Haag í Hollandi.

Ógn Rússlands við öryggi og frelsi

Merz sagði að NATO-ríki væru fyrst og fremst að auka útgjöld til varnarmála af ótta við aukin hernaðarumsvif Rússa.

„Þessar aðgerðir eru byggðar á athugunum okkar og sannfæringu,“ sagði hann og bætti því við að umfram allt steðji virk ógn að öryggi og frelsi manna í Evrópu af Rússlandi.

„Við óttumst það að Rússar haldi sínum stríðsrekstri áfram utan Úkraínu.“

Donald Trump heldur nú til leiðtogafundar NATÓ-ríkjanna, en ummæli hans …
Donald Trump heldur nú til leiðtogafundar NATÓ-ríkjanna, en ummæli hans um að Bandaríkin dragi sig úr varnarbandalaginu hafa vakið ólgu. AFP/Brendan Smialowski

Auknar fjárveitingar

Umræður um auknar fjárveitingar til varnarmála hafa einkennt fundinn. Það orð hefur farið af fundinum að honum sé að stórum hluta ætlað að halda Donald Trump ánægðum eftir ýmis ummæli hans um NATO og að önnur ríki geri ekki nógu mikið í eigin vörnum. 

Trump hefur áður krafist þess að önnur aðildarríki NATO ráðstafi að minnsta kosti 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála.

NATO-ríkin, 32 talsins, hafa lagt fram þá málamiðlun að 3,5% af landsframleiðslu fari til hernaðarmála og 1,5% til víðari varnar- og öryggismála á borð við netöryggi og innviði.

Tilkynnt var í gær að þeirri áætlun yrði flýtt um sex ár, eða til 2029. Aftur á móti er ekki einhugur meðal aðildarríkjanna um þessa tillögu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert