Eldflaugar frá Íran skotnar niður

Eldflaugar á himni fyrir ofan ísraelsku borgina Netanya í morgun.
Eldflaugar á himni fyrir ofan ísraelsku borgina Netanya í morgun. AFP/Jack Guez

Ísraelsher hefur greint frá því að tvær eldflaugar frá Íran hefðu verið skotnar niður í morgun eftir að vopnahlé á milli ríkjanna tók í gildi.

Leiddi þetta til þess að loftvarnaviðvörunarkerfi fóru í gang í norðurhluta Ísraels og var fólk hvatt til þess að leita skjóls í sprengjubirgjum.

„Tveimur eldflaugum var skotið frá Íran og þeim var eytt,“ sagði yfirmaður í Ísraelsher við AFP-fréttaveituna, en hann vildi ekki láta nafns síns getið.

Almenningi var tilkynnt um að það mætti yfirgefa loftvarnabyrgi um 15 mínútum eftir fyrstu viðvörun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gærkvöldi um vopnahlé á milli Írans og Ísraels og tilkynnti hann að það hefði tekið gildi á fimmta tímanum í nótt. 

Uppfært klukkan 9.17:

Tasnim-fréttaveitan, sem er nátengd ríkisstjórn Írans, hefur eftir yfirmanni íranska hersins að það sé ekki rétt að herinn hafi skotið eldflaugum að Ísrael eftir að vopnahlé hófst, að því er New York Times greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert