Fyrstu myndir geimsjónaukans Veru Rubin bárust til jarðar í gærkvöldi.
Gríðarlegt magn gagna frá honum kann að svara vangaveltum stjarnvísindamanna um sögu alheimsins, níundu plánetu og hulduefni, segir Sævar Helgi Bragason, umsjónarmaður Stjörnufræðivefjarins.
Hann segir sjónaukann byltingarkenndan og tilhlökkun meðal stjarnvísindafólks um allan heim vegna hans mikla sjónsviðs.
Frá hátindi Cerro Pachon í miðju Síle vaktar sjónaukinn himingeiminn frá suðurhveli jarðar.
„Þessi nýi sjónauki skannar himininn allan frá suðurhveli jarðar á þriggja nátta fresti og dregur þannig upp eins konar kvikmynd af næturhimninum,“ segir Sævar.
Þannig geti hann fundið öll þau fyrirbæri á næturhimninum sem breytist, svo sem smástirni í nágrenni okkar, sprengistjörnur og halastjörnur, að sögn Sævars. Sjónaukinn sé byltingarkenndur út frá þeim gögnum sem hann safnar á stuttum tíma.
„Þetta er stærsta myndavél sem menn hafa smíðað á sjónauka, eða um 3.200 megapixlar,“ segir Sævar og bætir því við að ljósop sjónaukans sé um 8,4 metrar.
Til þess að sýna eina ljósmynd frá honum þyrfti rúma 400 háskerpuskjái.
„Þetta er engin smásmíði og þetta kallar á framþróun í gervigreind og vélnámi til þess að vinna úr þessu gríðarlega magni af gögnum. Það er hreinlega ekki til nógu margt fræðafólki til að vinna úr þeim.“
Sævar segir að til standi að sjónaukinn muni starfa næstu árin og á þeim tíma muni hann safna ógrynni af upplýsingum um himingeiminn.
„Eftir eitt ár af fullum afköstum verður þessi sjónauki búinn að safna meiri gögnum heldur en allir aðrir sjónaukar sögunnar samanlagt, þannig að maður getur rétt ímyndað sér hversu mikið hann gæti leitt í ljós á næstu 10, 20 eða jafnvel 30 árum,“ segir Sævar.
Sævar segir að sjónaukinn gæti leitt í ljós tilvist nýrrar plánetu sem stjörnufræðinga hafi grunað að leyndist í afkimum sólkerfisins.
„Síðustu tíu árin, og jafnvel lengur, hefur okkur grunað að yst í sólkerfinu okkar leynist önnur reikistjarna sem ýti saman íshnöttum utarlega í sólkerfinu eins og smalahundur. Við vitum hins vegar ekki hvort hann sé til eða ekki,“ segir Sævar.
Vera Rubin-sjónaukinn sé hins vegar nægilega stór og næmur til þess að geta leitt tilvist slíkrar reikistjörnu í ljós eða hrakið þær vangaveltur allar.
Sævar segir að gögn frá sjónaukanum kunni að leiða í ljós hvernig tvær stærstu ráðgátur í stjarnvísindum í dag hegða sér.
„Þessi fyrirbæri, hulduefni og hulduorka, virðast vera í kringum 95% af orku- og efnisinnihaldi heimsins, og við höfum ekki hugmynd um það hvers eðlis þau eru.“
Margir sjónaukar úti í geimnum leiti einnig svara við því hvernig fyrirbærin hegði sér, en Sævar segir að vonandi geti hið gríðarlega magn gagna sem Vera Rubin safnar fært okkur nær svarinu um það hvað í veröldinni þau séu.