Trump biður Ísraelsmenn um að sýna stillingu

Donald Trump Bandaríkjaforseti varar Ísraelsmenn við því að sprengja í Íran eftir að vopnahlé tók gildi í nótt. Þetta kemur fram í færslu þess efnis á samfélagsmiðli Trumps, Truth social, og er færslan öll skrifuð með hástöfum.

„ÍSRAEL. EKKI LÁTA ÞESSAR SPRENGJUR FALLA. EF ÞIÐ GERIÐ ÞAÐ ER ÞAÐ ALVARLEGT BROT. KOMIÐ FLUGMÖNNUM YKKAR HEIM, STRAX! DONALD J. TRUMP, FORSETI BANDARÍKJANNA,“ segir í færslu forsetans.

Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrir utan Hvíta húsið í Washington-borg.
Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrir utan Hvíta húsið í Washington-borg. AFP/Mandel Ngan

Trump tilkynnti rétt upp úr klukkan 4 í nótt að íslenskum tíma að vopnahlé milli Írans og Ísraels tæki gildi þegar í stað.

Ástandið er enn viðkvæmt á svæðinu þrátt fyrir að bæði ríki hafi samþykkt vopnahléð. Hafa talsmenn beggja ríkja ásakað andstæðinga sína um að rjúfa vopnahléð með loftárásum.

Ísraelsmenn hafa tilkynnt að þeir ætli sér að hefna sín fyrir þessar árásir Írana.

Ætlar að reyna að stöðva árásirnar

Trump lýsti yfir óánægju sinni vegna árásanna sem virðast hafa verið gerðar á milli Ísraels og Írans eftir að vopnahlé hans tók gildi er hann ræddi við fjölmiðla í Hvíta húsinu fyrir skömmu.

„Ég ætla að sjá hvort ég geti stöðvað þetta,“ sagði Trump sem heldur nú til Hollands á leiðtogafund NATO.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert