Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggjast hittast í dag samhliða leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins [NATO] sem fer fram í Haag í Hollandi.
Þetta hefur AFP-fréttaveitan eftir háttsettum embættismanni hjá úkraínska forsetaembættinu.
„Teymi beggja [forseta] eru að leggja lokahönd á smáatriði“ fundarins, sagði heimildarmaðurinn við AFP og bætti við að fundurinn væri áætlaður snemma síðdegis.
Samkvæmt heimildarmanninum mun fundur forsetanna tveggja snúast um kaup Úkraínu á hergögnum, aðallega loftvörnum, ásamt nýjum mögulegum refsiaðgerðum gegn Rússlandi.
Þá verður einnig rætt um mögulegar breytingar á verðþaki sem sett hefur verið á olíu frá Rússlandi.
Úkraína og bandamenn ríkisins hafa leitast við að lækka núverandi olíuverðþak sem lagt var á Rússland eftir innrásina í Úkraínu fyrir meira en þremur árum, úr 60 dollurum í 45 dollara, til að skaða fjárhag Rússa.