Gæti setið inni til æviloka

Lena Sløgedal Paulsen og Stine Sofie Sørstrønen áttu ekki afturkvæmt …
Lena Sløgedal Paulsen og Stine Sofie Sørstrønen áttu ekki afturkvæmt úr sundferð sinni á Baneheia-útivistarsvæðinu í Kristiansand í maí árið 2000. Aldarfjórðungi síðar hefur Jan Helge Andersen hlotið sinn dóm fyrir áfrýjunardómstól fyrir að hafa verið einn að verki og nauðgað báðum stúlkunum auk þess að myrða þær báðar. Viggo Kristiansen, sem hann á sínum tíma kom hluta sakarinnar fimlega á við yfirheyrslur, kom aldrei nálægt þessu óhugnanlega sakamáli. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lögmannsréttur Gulaþings í Bergen í Noregi fann Jan Helge Andersen í morgun sekan um að hafa myrt Lenu Sløgedal Paulsen, átta ára gamla stúlku, í Baneheia í Kristiansand 19. maí árið 2000 í hrottalegu nauðgunar- og manndrápsmáli sem nú hefur um fjórðung aldar verið fjölskyldum tveggja ungra stúlkna í Suður-Noregi þung og bölsöm byrði.

Lögregla handtók Andersen í húsnæði lögmannsréttarins nokkrum mínútum eftir að dómur var upp kveðinn.

Fjallað hefur verið ítarlega um Baneheia-málið svokallaða hér á mbl.is, mál sem vakti gríðarlegan óhug meðal norskrar þjóðar þegar þær vinkonurnar Paulsen og Stine Sofie Sørstrønen, tíu ára, fundust myrtar á hinum vinsæla útivistar- og baðstað Baneheia fyrir 25 árum. Hafði þeim verið nauðgað, þær stungnar til bana og lík þeirra falin í gjótu.

Vísast nú að mestu til fyrri umfjöllunar sem finna má handan hlekkjanna hér í fréttinni, en í stuttu máli var Andersen handtekinn ásamt Viggo Kristiansen og kom smám saman sök á hann við yfirheyrslur hjá lögreglu sem leiddi til þess að Kristiansen hlaut þungan dóm og sat inni hálfa ævi sína, tvo áratugi, þar til hann var sýknaður af sínum þætti í málinu í desember 2022.

Sótti sjö sinnum um endurupptöku

Var Kristiansen á sínum tíma fundinn sekur um að hafa nauðgað báðum stúlkunum og myrt þær báðar auk þess að lokka Andersen með sér og hvetja hann til þátttöku í ódæðinu. Andersen var fundinn sekur um að hafa nauðgað báðum stúlkunum, en aðeins myrt aðra þeirra, Sørstrønen.

Hafði Kristiansen sótt sjö sinnum um endurupptöku síns hluta málsins og fékk loks meðbyr endurupptökunefndar er ný tækni í erfðarannsóknum sakamála gaf nýja svörun auk þess sem málið hafði verið rætt ítarlega í hinum vinsæla afbrotarannsóknarþætti Åsted Norge á TV2-sjónvarpsstöðinni.

Nákvæmari niðurstaða í krafti nýrrar tækni leit dagsins ljós á rétt­ar­mein­a­rann­sókn­ar­stof­unni í Santiago de Compostela á Norðvest­ur-Spáni, en hún hef­ur á að skipa sér­fræðing­um sem telj­ast með þeim fremstu í heim­in­um á sviði erfðarann­sókna í saka­mál­um.

Í kjölfar sýknu Kristiansens, sem dæmdar voru hæstu bætur til handa einstaklings í sögu norska ríkisins, 55 milljónir króna, jafnvirði rúmlega 660 milljóna íslenskra króna, fyrir 20 ára fangelsisvist að ósekju, hóf ákæruvaldið nýja för að Andersen. Viggo Kristiansen hafði ekkert haft með málið að gera, hann var ekki einu sinni staddur í Baneheia 19. maí vorið 2000.

Það eina sem hann ekki var dæmdur fyrir

Sótti saksóknari að Andersen fyrir það eina sem hann hafði ekki verið dæmdur fyrir, víg yngri stúlkunnar, en þar sem hann hafði þegar hlotið 19 ára dóm, gat ákæruvaldið ekki farið fram á meira en þau tvö ár sem upp á vantar í hámarksrefsinguna 21 ár þegar um hefðbundna dóma er að ræða.

Andersen er hins vegar talinn geta brotið af sér aftur. Lögregla fann myndefni er sýnir börn í kynferðisathöfnum á heimili hans er hann var handtekinn í tilefni nýrrar sóknar að honum sumarið 2022 og við mat geðlækna við rekstur nýja málsins var niðurstaðan að hann væri haldinn barnagirnd og andfélagslegri persónuleikaröskun (n. dyssosial personlighetsforstyrrelse).

Hlaut Andersen tveggja ára dóm fyrir Héraðsdómi Suður-Rogalands í júlí í fyrra, en í krafti álits geðlækna þess efnis að allar líkur teldust á því að hann bryti af sér á ný felldi meirihluti lögmannsréttar, án þess að ákæruvaldið færi fram á það, svokallaðan „forvaring“-dóm yfir Andersen í morgun, það er að segja dóm sem framlengja má án nýrrar ákæru sé sakborningur, að fengnu áliti sérfræðinga, ekki talinn hæfur til að strjúka um frjálst höfuð í mannlegu samfélagi.

Engin lágmarksrefsing tilgreind

Klofnaði Lögmannsréttur Gulaþings í afstöðu sinni í morgun, en dómur meirihlutans var að Andersen skyldi sæta því úrræði sem hér að ofan er nefnt. Frá sjónarhóli fræðanna táknar það að hann gæti í raun setið inni ævina á enda – enn hefur enginn norskur sakamaður fengið slíka framlengingu er þessu réttarúrræði er beitt, en hald margra er að fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik verði fyrstur til þess.

Tilgreindi lögmannsréttur enga lágmarksrefsingu Andersens svo sem hefð er fyrir er forvaring-dómar eru kveðnir upp (forvaring táknar bókstaflega varðveisla), Breivik hlaut til dæmis 21 árs dóm með tíu ára lágmarksafplánun, og var Andersen handtekinn í húsnæði dómstólsins fáum mínútum eftir að dómur var kveðinn upp.

Kvaðst hann strax við dómsuppsögu ætla að áfrýja til Hæstaréttar, en ólíklegt verður að teljast, í ljósi sakfellingar á báðum neðri dómstigum, að Hæstiréttur taki málið til meðferðar. Þó ekki útilokað.

Auk fangelsisrefsingarinnar, sem gæti orðið til æviloka, var Andersen dæmt að greiða foreldrum fórnarlambs síns, Paulsen, tæplega 8,6 milljónir króna í bætur, jafnvirði rúmlega 100 milljóna íslenskra króna.

Verjandi hans, Celine Krogh Fornes, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að þau skjólstæðingur hennar telji handtökuna í dómhúsinu hafa verið fullkominn óþarfa auk þess sem þau vísi því alfarið á bug að forsendur til réttarúrræðisins forvaring hafi verið fyrir hendi.

NRK

VG

TV2

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert