Trump íhugar að vísa Musk úr landi

Trump ræddi við blaðamenn á lóð Hvíta hússins í Washington …
Trump ræddi við blaðamenn á lóð Hvíta hússins í Washington í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann íhugi að vísa auðkýfingnum Elon Musk úr landi eftir að sá síðarnefndi, sem er fæddur í Suður-Afríku, gagnrýndi harðlega helsta útgjaldafrumvarp forsetans.

Trump sagði einnig að DOGE, sem er stofnun sem var sett á laggirnar til að hagræða í ríkisrekstri, sem Musk stýrði áður en hann steig til hliðar í lok maí, gæti beint sjónum sínum að opinberum styrkjum sem hefðu runnið til Musk og fyrirtækja hans, en hann stýrir m.a. Tesla og SpaceX.

„Ég veit það ekki. Við verðum að skoða það,“ sagði Trump við blaðamenn við Hvíta húsið í dag þegar hann var spurður hvort hann myndi íhuga að vísa Musk úr landi.

Elon Musk.
Elon Musk. AFP

Skrímslið gæti étið Elon

„Við gætum þurft að beita DOGE á Elon. Vitið þið hvað DOGE er? DOGE er skrímslið sem gæti þurft að snúa aftur og éta Elon.“

Trump ítrekaði hótunina þegar hann sagði að hann teldi að Musk væri að ráðast á hið svokallaða „stóra og fallega frumvarp“ Trump vegna þess að hann væri reiður yfir því að það hefði fellt niður ráðstafanir til stuðnings rafbílum.

„Hann er að missa rafbílaheimildina sína. Hann er mjög ósáttur við hlutina, en vitið þið, hann gæti misst miklu meira en það, ég get sagt ykkur það strax. Elon getur misst miklu meira en það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert