Verðlagshækkanir komi í veg fyrir lífstílssjúkdóma

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvetur til helmingi hærra verðlags á vörur sem leitt …
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvetur til helmingi hærra verðlags á vörur sem leitt geta til lífstílssjúkdóma. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/Unsplash/

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hvetur ríki heimsins til þess að hækka verðlag á tóbaksvörum, áfengi og sykruðum drykkjum til þess að skila meira fjármagni til ríkissjóðs og lækka tíðni lífsstílssjúkdóma.

Samkvæmt nýlegum rannsóknum myndi fimmtíu prósenta verðlagshækkun koma í veg fyrir 50.000.000 dauðsföll á næstu hálfu öldinni.

Leggur til helmingi hærra verðlag

Stofnunin leggur til að á næstu 10 árum verði verðlagið hækkað um að minnsta kosti 50% vegna áhrifa aukinnar neyslu á heilsu heimsbyggðarinnar. Þessi aukna neysla skili sér í faraldri lífsstílssjúkdóma á borð við hjartasjúkdóma, krabbamein og sykursýki.

Máli sínu til stuðnings bendir WHO til nýlegra rannsókna sem sýna að verðlag á tóbaksvörum, áfengi og sykruðum drykkjum þyrfti einungis að hækka um 50% einu sinni til þess að verðhækkunin kæmi í veg fyrir 50 milljónir ótímabærra dauðsfalla á næstu fimmtíu árum.

Heilsuskattar dragi úr neyslu

„Heilsuskattar eru eitt öflugasta tólið sem við höfum,“ segir Jeremy Farrar, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á sviði heilsueflingar og sjúkdómavarna í samtali við fréttastofu AFP.

„Slíkir skatta draga úr neyslu þessara heilsuspillandi vara og skapa jafnframt tekjur sem ríkisstjórnir geta ráðstafað til heilbrigðisþjónustu, menntunar og forvarna,“ segir Farrar. Nú sé tími til kominn að bregðast við vandanum.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni má rekja allt að 75% dauðsfalla á heimsvísu til langvarandi ósmitandi sjúkdóma, sem oft eru kallaðir lífsstílssjúkdómar vegna þess hve stóran hluta þeirra má rekja til óheilbrigðs lífernis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka