Donald Trump Bandaríkjaforseti er vonsvikinn með Vladímír Pútín, forseta Rússlands, sem hann telur ekki vilja binda enda á stríðið í Úkraínu.
Trump sagði þetta við fréttamenn eftir símtal við rússneska starfsbróður sinn. Að sögn Trumps leiddi símtalið ekki til neinna framfara þegar kemur að því að binda enda á stríðið. Trump segir í yfirlýsingu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, að hann muni í dag ræða við Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, og fara yfir málin með honum.
„Þetta var frekar langt símtal, við ræddum margt, þar á meðal Íran, og við ræddum líka, eins og þið vitið, stríðið við Úkraínu. Og ég er ekki ánægður með það,“ sagði Trump við fréttamenn.
Aðspurður hvort hann hefði færst nær samkomulagi um að binda enda á stríðið svaraði Trump: „Nei, ég náði engum árangri við hann.“
Júrí Úsjakúv, ráðgjafi Pútíns, segir í viðtali við AFP-fréttaveituna að Pútín hafði ítrekað í símtalinu við Trump að Rússland muni ekki gefa eftir markmið sín í Úkraínu.
„Forseti okkar sagði að Rússland muni ná þeim markmiðum sem það setti sér, það er að segja að útrýma róttækum orsökum sem leiddu til núverandi ástands,“ sagði Úsjakúv.
Rússar hafa neitað að samþykkja vopnahlé sem Bandaríkjamenn hafa lagt til en stjórnvöld í Úkraínu og vestrænir bandamenn þess hafa sakað Pútín um að draga ferlið á langinn á meðan þeir hafa áfram sókn sinni í Úkraínu.