Tala látinna í kjölfar skyndiflóðanna, sem skullu á í Texas-ríki í Bandaríkjunum á föstudag, er orðin 50. Þar á meðal eru 15 börn.
Kerr-sýsla, sem er um 150 km frá borginni San Antonio varð verst úti, þar sem 43 eru látnir og þá eru fjórir látnir í Travis-sýslu, tveir í Burnet-sýslu og einn í Tom Green-sýslu.
Enn er leitað að 27 stúlkum sem voru í Camp Mystic-sumarbúðunum í Kerr-sýslu þegar flóðin skullu á.
„Við munum leita þar til allir sem saknað er hafa fundist,“ sagði Nim Kidd, yfirmaður í neyðarþjónustu Texas-ríkis.
Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, sagðist myndu lýsa yfir neyðarástandi á stærra svæði en þegar hefur verið gert og að frekari fjárstuðnings yrði óskað frá Donald Trump og alríkisstjórninni.
Úrkoman sem féll á nokkrum klukkustundum á föstudag nam margra mánaða meðalúrkomu á þessu svæði. Vatnsyfirborð í Guadalupe-ánni hækkaði um átta metra á um 45 mínútum.
Bandaríska veðurstofan (NWS), hefur varað við frekari úrkomu, sem gæti valdið flóðum í ám, lækjum, og öðrum svæðum á láglendi þar sem vatn getur flætt.