„Það eru ekki mannréttindi að búa í Svíþjóð“

Ráðherra segir áformin ekki snúast um að „breyta skoðunum“, heldur …
Ráðherra segir áformin ekki snúast um að „breyta skoðunum“, heldur um að „halda uppi gildunum sem við höfum í Svíþjóð“. Ljósmynd/Colourbox

Svíþjóð stefnir nú að því að kanna gildi innflytjenda í von um að bæta aðlögun þeirra að frjálslyndu samfélagi landsins. Þetta segir Simona Mohams­son, nýr mennta- og aðlögunarráðherra Svíþjóðar.

Hægrisinnuð ríkisstjórn komst til valda í Svíþjóð árið 2022 og hét því að herða á útlendingalöggjöfinni og meðal annars bæta aðlögun innflytjenda.

Simona Mohamsson segir að sænska samfélagið sé frábrugðið þeim samfélögum sem innflytjendurnir koma frá og því getur oft verið flókið að aðlaga innflytjendur. Nefnir hún að í Svíþjóð sé til dæmis ekki feðraveldi.

„Við erum öfgafullt land, á góðan hátt. Fyrir fólk sem kemur inn í samfélagið okkar getur verið svolítið erfitt að átta sig á því,“ sagði hún.

Ólíkar skoðanir um skilnað, þungunarrof og samkynhneigð

Kannanir sem framkvæmdar voru af World Value Survey Research Group sýna að sumir innflytjendur sem eru nýkomnir til Svíþjóðar hafa ólíkar skoðanir en innfæddir Svíar, sérstaklega um mál eins og skilnað, kynlíf utan hjónabands, þungunarrof og samkynhneigð.

Eftir 10 ár í Svíþjóð höfðu gildi þeirra þróast og voru meira í samræmi við gildi innfæddra Svía.

„Tíu ár er alltof langur tími. Það er heil kynslóð stúlkna sem fá ekki að velja hverjar þær vilja elska eða stráka sem geta ekki komið út úr skápnum,“ sagði Mohamsson.

Könnuð verða gildi 3.000 manns, helmingur þeirra af sænskum bakgrunni og helmingur „ekki frá vestræna heiminum“.

„Niðurstaðan mun leiðbeina aðlögunarviðleitni okkar þaðan af.“

Vilja haldi uppi sænskum gildum

Mohamsson segir áætlunina ekki snúast um að „breyta skoðunum“, heldur um að „halda uppi gildunum sem við höfum í Svíþjóð“.

Þeir sem kjósi að koma til Svíþjóðar beri ábyrgð á að reyna að verða hluti af samfélaginu.

„Það eru ekki mannréttindi að búa í Svíþjóð.“

Tekið við mörgum flóttamönnum

Svíþjóð hefur tekið við miklum fjölda flóttamanna síðan á tíunda áratugnum og margir þeirra sem voru á flótta komu frá löndum eins og Afganistan, Íran, Írak, Sómalíu, Sýrlandi og fyrrum Júgóslavíu.

Eftir árið 2015 fjölgaði hælisleitendum verulega og síðan þá hafa sænsk stjórnvöld, bæði vinstri- og hægrisinnuð, hert á málaflokknum.

Árið 2024 voru um 20 prósent af íbúum Svíþjóðar fæddir í öðru landi samanborið við um 11 prósent árið 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert