Forsætisráðherra Japans, Shigeru Ishiba, mun segja af sér á næstunni eftir að flokkur hans, Frjálslyndi demókrataflokkurinn (LDP), missti meirihluta í báðum deildum japanska þingsins.
Þessu greindu fjölmiðlar frá í dag, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann hafði náð samkomulagi við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um nýjan viðskiptasamning.
Samkvæmt japönskum fjölmiðlum hyggst Ishiba láta af störfum í síðasta lagi í lok ágúst þó ekki liggi fyrir hvenær hann stígi endanlega til hliðar.
Þrýstingur innan flokksins hefur aukist eftir hrakfarir í síðustu kosningum en flokkurinn hefur stýrt landinu nær samfellt síðan árið 1955.
