Rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov sagði í morgun – í kjölfar Washington-fundar þjóðarleiðtoga um Úkraínumál í gær – að hvers eðlis sem friðarsamkomulag vegna Úkraínu yrði, væri það skilyrði af hálfu rússneskra stjórnvalda að öryggi Rússlands yrði þar fastmælum bundið.
„Án virðingar fyrir öryggishagsmunum Rússa, án virðingar fyrir réttindum Rússa og rússneskumælandi íbúa Úkraínu, er tómt mál að tala um hvers kyns langtímasamkomulag,“ sagði Lavrov við Rossiya 24-stöð rússneska ríkisútvarpsins í morgun.
