Fjórar stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa með yfirlýsingu sinni í dag staðfest að hungursneyð ríki nú á Gasasvæðinu, þar sem Ísraelsher fer með oddi og egg á hendur Palestínumönnum, og segja stofnanirnar – Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, Barnahjálp SÞ, Matvælaáætlun SÞ og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin – meira en hálfa milljón manns nú í viðjum hungurs.
Ítreka framangreindar stofnanir þá nauðsyn sem þær segja á tafarlausri og umfangsmikilli mannúðaraðstoð á Gasa þar sem æ fleiri dauðsföll verði nú af völdum vannæringar og hundruð þúsunda fái ekki matarbita dögum saman.
Segir í yfirlýsingu stofnananna að binda verði endi á hungursneyðina með öllum tiltækum ráðum. Knýjandi nauðsyn sé á tafarlausu vopnahléi í átökum Ísraela og Hamas-samtakanna palestínsku svo koma megi við þeirri aðstoð á svæðinu sem nú sé bráð þörf á.
Samkvæmt spá, sem birt er í yfirlýsingunni er gert ráð fyrir því að við lok septembermánaðar muni rúmlega 640.000 manns á Gasasvæðinu standa frammi fyrir fæðuskorti á hamfarastigi (e. catastrophic) sem er fimmta og efsta stig IPC-kvarðans sem mælir fæðuöryggi í heiminum. Auk þess fjölda muni 1,14 milljónir manns búa við skort á fjórða stigi kvarðans sem er neyðarástand (e. emergency) og 396.000 til viðbótar verða á þriðja stiginu sem er hættuástand (e. crisis).
Eru aðstæður að þessu leyti taldar jafnar – eða verri – á Norður-Gasa og í Gasaborg, þar sé vandasamt að meta ástandið svo ekki sé unnt að slá þessu föstu auk þess sem greining á Rafah fór ekki fram í ljósi þess að borgin er að mestu yfirgefin.
„Fólk á Gasasvæðinu hefur reynt til þrautar allar mögulegar leiðir til að lifa af,“ er haft eftir Qu Dongyu, framkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar, „hungur og vannæring heimta mannslíf dag hvern og eyðing ræktarlands, bústofns, gróðurhúsa, fiskveiða- og matvælaframleiðslukerfa hefur gert ástandið enn ískyggilegra,“ segir framkvæmdastjórinn af hungursneyðinni sem nú er staðfest á Gasa.