Varðbátur lýbísku strandgæslunnar skaut í gær mörg hundruð skotum á norska björgunarskipið Ocean Viking sem er í eigu útgerðarinnar Høyland Offshore á eyjunni Sotra í Bergen en 120 manns voru þá um borð í skipinu sem statt var á alþjóðlegu hafsvæði á Miðjarðarhafi.
„Ítölsk yfirvöld báðu okkur að vera til fulltingis í annarri björgunaraðgerð og þegar við komum á svæðið hóf lýbíska varðskipið skothríð,“ segir Karsten Høyland eigandi útgerðarinnar í samtali við norska dagblaðið VG í morgun en Ocean Viking er nú í þjónustu ítalska Rauða krossins sem hefur það á leigu ásamt björgunarsamtökunum SOS Méditerranée og hefur skipið verið við björgunarstörf á Miðjarðarhafinu sem flóttafólk reynir að komast yfir frá norðurströnd Afríku.
Eftir því sem SOS Méditerranée greinir frá á samfélagsmiðlinum X stóð skotárás lýbíska varðbátsins yfir í rúmar fimm mínútur. Hefur björgunarmiðstöð sjóslysa í Noregi, Hovedredningssentralen, staðfest að atburðurinn hafi átt sér stað.
Ocean Viking er tæplega 70 metra langt flutningaskip sem sérstaklega hefur verið útbúið til björgunarstarfa á sjó með lækningaaðstöðu og fjórum hraðskreiðum björgunarbátum og getur skipið flutt allt að 200 flóttamenn auk níu manna áhafnar.
Aðfaranótt gærdagsins bjargaði áhöfn Ocean Viking 47 nauðstöddum flóttamönnum um borð, þar af mörgum sem sem voru á flótta undan blóðugri borgarastyrjöld í Suður-Súdan. Hefur skipið verið við björgunarstörf á Miðjarðarhafi frá sumrinu 2019 og oft átt við ramman reip að draga er halda skal til hafnar á Ítalíu þar sem þarlend stjórnvöld hafa oftar en ekki meinað því að koma að landi eða aftrað því frá að leggja í haf til nýrra björgunarstarfa.