Skotið á norskt björgunarskip á Miðjarðarhafi

Kúlur úr hríðskotabyssum skyttna lýbísku strandgæslunnar er skutu mörg hundruð …
Kúlur úr hríðskotabyssum skyttna lýbísku strandgæslunnar er skutu mörg hundruð skotum á Ocean Viking í gær. Ljósmynd/X/SOS Méditerranée

Varðbátur lýbísku strandgæslunnar skaut í gær mörg hundruð skotum á norska björgunarskipið Ocean Viking sem er í eigu útgerðarinnar Høyland Offshore á eyjunni Sotra í Bergen en 120 manns voru þá um borð í skipinu sem statt var á alþjóðlegu hafsvæði á Miðjarðarhafi.

„Ítölsk yfirvöld báðu okkur að vera til fulltingis í annarri björgunaraðgerð og þegar við komum á svæðið hóf lýbíska varðskipið skothríð,“ segir Karsten Høyland eigandi útgerðarinnar í samtali við norska dagblaðið VG í morgun en Ocean Viking er nú í þjónustu ítalska Rauða krossins sem hefur það á leigu ásamt björgunarsamtökunum SOS Méditerranée og hefur skipið verið við björgunarstörf á Miðjarðarhafinu sem flóttafólk reynir að komast yfir frá norðurströnd Afríku.

Rúður skaddaðar eftir atlöguna.
Rúður skaddaðar eftir atlöguna. Ljósmynd/X/SOS Méditerranée

Eftir því sem SOS Méditerranée greinir frá á samfélagsmiðlinum X stóð skotárás lýbíska varðbátsins yfir í rúmar fimm mínútur. Hefur björgunarmiðstöð sjóslysa í Noregi, Hovedredningssentralen, staðfest að atburðurinn hafi átt sér stað.

Björguðu 47 manns um helgina

Ocean Viking er tæplega 70 metra langt flutningaskip sem sérstaklega hefur verið útbúið til björgunarstarfa á sjó með lækningaaðstöðu og fjórum hraðskreiðum björgunarbátum og getur skipið flutt allt að 200 flóttamenn auk níu manna áhafnar.

Hér sjást skyttur í áhöfn lýbíska varðbátsins skjóta á norska …
Hér sjást skyttur í áhöfn lýbíska varðbátsins skjóta á norska skipið á Miðjarðarhafi í gær. Ljósmynd/X/SOS Méditerranée

Aðfaranótt gærdagsins bjargaði áhöfn Ocean Viking 47 nauðstöddum flóttamönnum um borð, þar af mörgum sem sem voru á flótta undan blóðugri borgarastyrjöld í Suður-Súdan. Hefur skipið verið við björgunarstörf á Miðjarðarhafi frá sumrinu 2019 og oft átt við ramman reip að draga er halda skal til hafnar á Ítalíu þar sem þarlend stjórnvöld hafa oftar en ekki meinað því að koma að landi eða aftrað því frá að leggja í haf til nýrra björgunarstarfa.

VG

Nettavisen

Adressa.no

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka