François Bayrou, forsætisráðherra Frakklands, berst nú fyrir pólitísku lífi sínu í deilum um fjárlög við stjórnarandstöðuna og ætti að „kveðja,“ að sögn Olivier Faure, leiðtoga sósíalista, sem hefur fallið frá stuðningi við hann.
Forsætisráðherrann tilkynnti fyrir skömmu að hann hygðist óska eftir traustsyfirlýsingu franska þingsins hinn 8. september í von um að tryggja nægan stuðning við áætlun sína um niðurskurð ríkisútgjalda. Faure sagði að ákvörðun sósíalista um að greiða atkvæði gegn ríkisstjórn Bayrous 8. september væri endanleg.
„Ákvörðunin sem við tókum er óafturkræf,“ sagði hann í viðtali við fjölmiðla. „Það eina sem ég bíð eftir að hann geri núna er að kveðja.“
Hann hvatti einnig Emmanuel Macron forseta til að skipa forsætisráðherra úr röðum vinstri manna í samræmi við niðurstöður skyndikosninganna síðasta sumar, þegar bandalag vinstri flokka vann flest sæti en ekki meirihluta. Frá og með mánudegi hyggst Bayrou, sem er 74 ára gamall, hefja viðræður við stjórnarandstöðuna, en með því skilyrði að flokkarnir skuldbindi sig til að styðja aðhaldsaðgerðir.
Þótt Macron hafi lýst yfir stuðningi við hann hafa stjórnarandstöðuflokkar þegar sagt að þeir muni ekki styðja fjárlögin. Bayrou vill spara um 44 milljarða evra með ráðstöfunum á borð við að fækka frídögum og frysta allar útgjaldaaukningar ríkisins.
Aðgerðirnar hafa mælst illa fyrir í skoðanakönnunum og hafa verkalýðsfélög boðað til mikilla mótmæla í september. Þetta útspil Bayrous hefur vakið ótta um að Frakkland geti staðið frammi fyrir nýju og illviðráðanlegu tímabili langvarandi pólitísks og fjárhagslegs óstöðugleika.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
