Kínverski hraðtískurisinn Shein hefur hafið rannsókn innan fyrirtækisins í kjölfar þess að ljósmynd af manni, sem var að öllum líkindum búin til af gervigreind, voru notuð í auglýsingu á vefsíðu fyrirtækisins. Maðurinn á myndini leit út eins og Luigi Mangione sem er grunaður um morð í New York í desember.
Mangione hefur verið ákærður fyrir morðið á Brian Thompson, forstjóra stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, en hefur vakið athygli fyrir annað en ódæðisverkin sem hann er ákærður fyrir, en það er útlit hans og fatastíll.
Myndin hefur verið fjarlægð af vefsíðu Shein en á henni virtist Mangione sitja fyrir í hvítri stutterma skyrtu, fáanlegri á Shein á aðeins 7,50 pund.
Talsmaður Shein sagði við fréttastofu BBC að myndin hefði verið fengin frá þriðja aðila og fjarlægð um leið og fyrirtækið áttaði sig á að „módelið“ líktist Mangione.
„Við erum með stranga staðla fyrir allt sem birtist á síðunni okkar,“ sagði hann.
„Við höfum hafið ígrundaða rannsókn, erum að auka eftirlit og munum grípa til viðeigandi aðgerða gegn söluaðilanum í samræmi við stefnu fyrirtækisins.“
Ekki liggur enn fyrir hve lengi myndin hafði verið á síðunni eða hver ábyrgðaraðilinn er en talið er líklegt að myndin hafi verið búin til af gervigreind, þó að það hafi ekki fengist staðfest.