Mandelson lávarður kallaði dæmda barnaníðinginn Jeffrey Epstein besta vin sinn, samkvæmt bréfi sem er að finna í svokallaðri „afmælisbók“ sem bandarískir þingmenn hafa birt.
Í skilaboðunum í tilefni af 50 ára afmæli Epsteins árið 2003 lýsir Mandelson lávarður, sem er núverandi sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, honum sem „gáfuðum, snjöllum manni“ sem kom óvænt inn í hans líf. Epstein lést í fangelsi árið 2019.
Fyrst var greint frá tilvist bréfsins frá Mandelson í bandaríska dagblaðinu Wall Street Journal í júlí, þegar blaðið birti upplýsingar um meinta afmæliskveðju.
Talsmaður Mandelson lávarðar segir í samtali við BBC að hann hafi lengi tekið skýrt fram að hann harmi mjög að hafa nokkurn tíma verið kynntur fyrir Epstein.
Demókratar á Bandaríkjaþingi birtu afrit af svokallaðri afmælisbók eftir að eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar krafðist þess að skjölin yrðu afhent í síðasta mánuði.
Skjölin innihalda einnig miða með teikningu af líkama konu sem sögð er vera undirrituð af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Hvíta húsið neitaði því í gær að hún væri ósvikin og sagði að forsetinn hefði ekki teiknað þessa mynd og hann hefði ekki skrifað nafn sitt við hana.
Ghislaine Maxwell, breskur samstarfsmaður og fyrrverandi kærusta Epsteins, tók afmælisbókina saman. Hún var dæmd árið 2021 fyrir samsæri um að útvega stúlkur í kynferðislegum tilgangi.
Bókin er dagsett þremur árum áður en ásakanir um kynferðisofbeldi af hálfu Epsteins komu fram opinberlega árið 2006.
